Við leyfðum stelpunum að sofa hálftíma lengur í dag og buðum svo upp á morgunmat kl. 10. Alveg nauðsynlegt fyrir þær fannst þeim því það er búin að vera mikil keyrsla og allar þreyttar og sælar.

Stelpurnar fengu grænmetisbuff í hádegismat og borðuðu þær allar vel. Sumar sögðust ekki borða grænmetisbuff en fengu sér nú samt og borðuðu það með bestu lyst. Eftir hádegismat fóru þær í ævintýragöngu. Þar sem bundið var fyrir augun þeirra og þær löbbuðu á milli herbergja og þurftu að leysa allskyns þrautir og hitta skemmtilegt fólk. Þær þurftu að vekja Þyrnirós og fengu súkkulaði í gjöf, Kobbi kló leyfði þeim að pota í augu frá gömlum sjóræringjum og finna táneglur og fleira. Norn var í einu herbergi og fengu þær að smakka ógeðsmat hjá henni, ekki voðalega vinsæl hjá stelpunum. Þær hittu líka Gullbrá og fengu að smakka þrjá mismunandi grauta sem voru misgóðir.
Eftir allt þetta sprell var ákveðið að skella í pottapartý og gera sig svo sætar og fínar fyrir veislukvöldið. Þær fóru allar í sitt fínasta púss og allar fengu fléttur í hárið. Í veislumat var pizza og þið getið rétt ímyndað ykkur fögnuðinn við því. Þær gjörsamlega tæmdu pizza hlaðborðið og vildu fá meiri pizzu en í staðinn buðum við þeim upp á eftirrétt.
Veislukvöldvakan heppnaðist einstaklega vel. Foringjarnir skelltu sér í búninga og léku listir sínar fyrir börnin og hlóu þær mikið. Í endann kölluðu þær MEIRA-MEIRA-MEIRA. Engin furða, foringjarnir eru svo frábærir og kunna svo sannarlega að skemmta stelpunum. Stelpurnar voru svo svæfðar og fengu söng frá foringjunum fram á gangi. Þær voru allar mjög fljótar að sofna enda þreyttar eftir allan þennan hlátur og mikið sprell.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157708985286143

Ölverskveðja
Forstöðukona