Í gær lögðu 48 hressar stelpur af stað upp í Ölver í Listaflokk. Ég kemst eiginlega ekki lengra með textann án þess að minnast á hversu frábærar stelpur þetta eru. Um leið og við komum upp í Ölver fundum við starfsfólkið að hópurinn var alveg einstakur. En stelpurnar byrjuðu á því að safnast saman inni í matsal þar sem þeim var skipt upp í herbergi. Passað var upp á að allar vinkonur fengju að vera saman í herbergi. Því næst komu þær sér fyrir í herbergjunum sínum og svo fengum við okkur skyr og brauð í hádegismat. Maturinn rann ljúflega niður á methraða enda stelpurnar spenntar að fara að skoða svæðið.

Eftir matinn fórum við svo saman í gönguferð þar sem foringjarnir sögðu stelpunum frá helstu kennileitum hér í kring, tröllskessunni Dísu sem liggur ofan á fjallinu hér fyrir ofan Ölver, íþróttahúsinu, leiktækjunum og svo enduðum við saman á fótboltavellinum í leikjum. Þá var komið að kaffitíma þar sem stelpurnar fengu ávexti og súkkulaðibitakökur.

Eftir kaffi var boðið upp á heita pottinn, vatnafjör, hoppukastala og frjálsan leik inni eða úti alveg fram að kvöldmat. Í kvöldmatinn var grænmetisbuff með kúskúsi og salati ásamt heimalagaðri grænmetissósu.

Á hverju kvöldi fara stelpurnar á kvöldvöku. Þar syngjum við mikið, förum í leiki og fáum að sjá leikrit. Á fyrstu kvöldvökunni sáu foringjar flokksins um skemmtunina en næstu kvöld munu stelpurnar svo skiptast á að sýna leikrit. Stelpurnar fengu að heyra biblíusöguna um Mörtu og Maríu sem kennir okkur að gefa okkur tíma til að hlusta á Guðs orð og gleyma okkur ekki í stressinu öllu stússinu sem fylgir okkur á hverjum degi.

Eftir kvöldvökuna var boðið upp á ávexti (eins og sjá má erum við alltaf að borða) og svo fóru stelpurnar að leita að bænakonunni sinni. Hvert herbergi á sína bænakonu sem les fyrir þær á kvöldin, biður með þeim og passar sérstaklega upp á stelpurnar í sínu herbergi. Það eru foringjar flokksins sem taka þetta hlutverk að sér. Stelpurnar voru flestar orðnar mjög þreyttar eftir langan dag og eins og eðlilegt er þegar maður er að sofna í fyrsta skipti á nýjum stað, þá tók það smá stund fyrir allar stelpurnar að sofna. Það tókst þó á endanum og sváfu þær allar vel í nótt.

Dagurinn í dag byrjar af miklum krafti en eftir morgunmat tóku allar stelpurnar til í herbergjunum sínum (en það er hluti af hegðunarkeppninni sem er svo vinsæl hér í Ölveri). Eftir tiltektina var morgunstund þar sem við lærðum aðeins um Biblíuna og hvað hún hefur að geyma. Þá lá leiðin beint út í íþróttahús þar sem stelpurnar lærðu þjóðaríþrótt Ölvers, brennó. Þær kepptu sína fyrstu leiki en brennókeppnin mun halda áfram út allan flokkinn.

Í þessum skrifuðu orðum eru stelpurnar að borða hádegismat, fiskibollur í karrýsósu með kartöflum og salati. Í dag bíður þeirra svo spennandi dagskrá í góða veðrinu og sólin heldur áfram að gleðja okkur með nærveru sinni.

Við reynum að birta nýjar myndir á hverjum degi svo endilega fylgist með!

Sólarkveðja úr Ölveri,

Hjördís Rós forstöðukona