Jæja hér koma fleiri fréttir úr Listaflokki í Ölveri. Eftir hádegismatinn í gær var hringekja. Þá var stelpunum skipt upp í þrjá hópa sem skiptust á að vera á þremur stöðvum. Á einni stöðinni lærðu þær lag og sungu saman í kór, á annarri stöðinni sömdu þær klapp-dans og á þeirri þriðju máluðu þær listaverk með vatnslitum. Eftir stöðvarnar var frjáls leikur sem stelpurnar nýttu vel fram að kaffitíma. Í kaffitímanum var boðið upp á heimabakaðar bollur og sjónvarpsköku.

Eftir kaffi skelltum við okkur í göngutúr niður að læk. Þar fengu stelpurnar að vaða í læknum og mála á steina. Þó sólin hafi ekki skinið jafnskært seinni part dags þá var yndælis veður og allir höfðu gaman af göngunni. Þegar heim var komið var frjáls leikur en tvö herbergi undirbjuggu atriði fyrir kvöldið.

Í kvöldmatinn var boðið upp á kakósúpu og brauð. Eftir matinn hófst kvöldvakan þar sem stelpurnar í Hlíðarveri og Skógarveri sáu um skemmtunina. Stelpurnar stóðu sig með stakri prýði og allir skemmtu sér konunglega. Líkt og í gær var boðið upp á ávexti áður en stelpurnar fóru upp í rúm. Bænakonurnar sáu um að koma öllum í ró og gekk það betur en fyrsta kvöldið. Allar sváfu vel í nótt.

Lúsmýið er aðeins farið að láta vita af sér hér og nokkrar stelpur komnar með þónokkuð mörg bit. Þær bera sig allar mjög vel og við erum duglegar að bera á þær kláðastillandi krem.

Í morgun var sama rútína og í gær, eftir morgunmat og tiltekt fóru stelpurnar á morgunstund þar sem við spjölluðum saman um sköpun Guðs og hvað það væri sem myndi einkenna okkur hverja og eina. Þá lá leiðin út í brennó. Eftir brennókeppnina var hádegismatur þar sem í boði var kjúklingaréttur með hrísgrjónum og salati. Stelpurnar eru nú á fullu að æfa sig fyrir hæfileikasýningu sem verður eftir hádegi.

Endilega kíkið á myndirnar á myndasíðunni.

Bestu kveðjur héðan úr dásamlegu veðri í Ölveri,

Hjördís Rós, forstöðukona