Þá höldum við áfram þar sem frá var horfið. Eins og fram kom í fréttinni í gær tóku stelpurnar þátt í hæfileikasýningu. Þar sýndu stelpurnar listir sínar, allt frá spilagöldrum og töfrabrögðum til frumsamdra leikrita og sirkusatriða. Í kaffitímanum var boðið upp á pizzasnúða og jógúrtkökur. Eftir kaffið bjuggu stelpurnar til styttur úr leir og við tókum upp tónlistarmyndband við Ölverslagið í ár. Í kvöldmat var boðið upp á heimalagað jarðaberjajógurt og brauð.

Þá var komið að kvöldvökunni. Þar sýndu stelpurnar í Fuglaveri, Reyniveri og Lindarveri leikrit og voru með leiki og svo fengum við að heyra sögur um Daníel og Rut. Eins og alltaf skemmtu stelpurnar sér konunglega á kvöldvökunni og eftir fjöruga kvöldvöku var boðið upp á ávexti fyrir svefninn. Stelpurnar háttuðu og burstuðu tennurnar og héldu að þær væru að fara að sofa. Það var þó ekki raunin því bænakonurnar stukku inn í herbergin til þeirra og tilkynntu að nú væri komið NÁTTFATAPARTÝ! Mikil fagnaðarlæti brutust út. Eftir dans og limbó fengu stelpurnar ís. Þær voru svo ekki lengi að sofna þegar partýið var búið. Allar sváfu þær vel í nótt.

Í morgun voru þær svo vaktar með söng og látum enda sjálfur þjóðhátíðardagurinn runninn upp. Eftir morgunrútínuna okkar (morgunmatur og tiltekt) fóru þær á biblíulestur og við töluðum um gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“. Brennókeppnin var að sjálfsögðu á sínum stað og af því að í dag er 17. júní þá bauð eldhússtarfsfólkið upp á grillaðar pylsur í hádegismat. Eftir hádegismatinn breyttu foringjarnir staðnum í ævintýrahús og leiddu stelpurnar á milli herbergja þar sem þau heimsóttu Kaptein Krók, dansandi trúð, Gullbrá og norn.

Í kaffitímanum var boðið upp á glæsilega köku sem skreytt var eins og íslenski fáninn og Rice crispies kökur. Við lögðum svo af stað í skrúðgöngu með söng og fánum í miklu roki. Stelpurnar létu rokið lítið á sig fá en skrúðgöngunni lauk með candyflossi í sólinni. Tvö herbergi undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvöku en hinir léku sér í sólinni og fóru í heita pottinn.

Stelpurnar voru nú að ljúka við kvöldmatinn en í kvöldmat var hakk og spagetti ásamt grænmeti. Næst á dagskrá er kvöldvaka. Á morgun bíður okkar svo skemmtilegur veisludagur. Við biðjum kærlega að heilsa héðan úr Ölveri.

Ölverskveðja,

Hjördís Rós, forstöðukona