Í dag komu dásamlegar og hressar stelpur upp í Ölver í Leikjaflokk. Við byrjuðum á því að safnast saman inni í matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig, farið var yfir reglur og þeim loks skipt upp í herbergi. Passað var upp á að allar vinkonur fengju að vera saman í herbergi. Því næst komu þær sér fyrir í herbergjunum sínum, skoðuðu sig um og svo fengum við okkur skyr og brauð með gómsætu áleggi í hádegismat.
Eftir matinn fórum við svo saman í gönguferð þar sem foringjarnir sögðu stelpunum frá helstu kennileitum hér í kring, tröllskessunni Dísu sem liggur ofan á fjallinu hér fyrir ofan Ölver, íþróttahúsinu, leiktækjunum og svo enduðum við saman á fótboltavellinum í leikjum. Þá var komið að kaffitíma þar sem stelpurnar fengu nýbkaðar lummur, pizzasnúða og karmellulengjur.
Eftir kaffi var farið í svokallaða Ölversleika, keppt var í hinum ýmsum íþróttagreinum eins og lautarhlaupi, sippi, jötunfötu og sögugerð. Hoppukastalanum var skellt í gang og líktu þær honum við hinn besta vatnsrennibrautagarð þar sem hann var aðeins blautur eftir nóttina, skemmtu þær sér konunglega vð að hoppa og skoppa um í bleytunni. Þrjú herbergi æfðu síðan leikrit fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn voru fiskibollur, hrísgrjón með karrýsósu og grænmeti og rann hann ljúflega niður.
Á hverju kvöldi fara stelpurnar á kvöldvöku. Þar syngjum við mikið, förum í leiki og fáum að sjá leikrit í boði stelpnanna. Stelpurnar fengu síðan að heyra hugleiðingu eins foringjans um fyrirmyndir og lagði hann upp með söguna um Pollýönnu og minnti á mikilvægi þess að sjá hið góða, jákvæða og fallega í öllu og öllum. Beðin var kvöldbæn og stelpurnar sungu fallega kvöldsönginn okkar.
Eftir kvöldvökuna var boðið upp á ávexti og svo fóru stelpurnar í smá bænakonuleik, þar sem þær þurftu sjálfar að finna út hver bænakona herbergisins yrði. Hvert herbergi á sína bænakonu sem les fyrir þær á kvöldin, biður með þeim og passar sérstaklega upp á stelpurnar í sínu herbergi. Það eru foringjar flokksins sem taka þetta hlutverk að sér. Nú er að færast ró yfir staðinn eftir þennan fyrsta en frábæran dag. Stelpurnar eru flestar orðnar frekar þreyttar en maður finnur líka fyrir spennunni sem fylgir fyrsta kvöldinu á nýjum stað.
Guð gefi þeim og okkur öllum góða nótt og fleiri fréttir ásamt myndum munu koma á morgun.
Kær kveðja úr Ölveri,
Erla Björg forstöðukona