Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar og tilbúnar í daginn kl.8.30. Næst var haldið í morgunmat þar sem er m.a boðið uppá hafragraut. Eftir morgunmatinn var fánahylling sem er rótgróin hefð hér á bæ og síðan tiltekt inná herbergjunum en það er hegðunar-og snyrtimennskukeppni í gangi sem allir leggja sig fram við að vinna 😉
Þá var haldið á morgunstund þar sem við spjölluðum saman um að vera ljós í þessum heimi, að gefa af okkur og vera góðar og kærleiksríkar manneskjur. Þær lærðu að fletta upp í Nýja testamenntinu, m.a einkunnarorðum Ölvers sem finna má í Davíðassálmunum „Hjá þér er uppspretta lífsins“. Þá var farið í brennókeppni en stelpunum hefur verið skipt upp í lið og er brennókeppnin ómissandi hluti af dagskránni hér.

Í hádegismatinn voru kjúklingaleggir, kartöflubátar og koktailsósa. Borðuðu þær mjög vel en þessi hópur er einstaklega lystugur. Eftir hádegi var svo ferið í hárgreiðslu-og hönnunarkeppni sem endaði með tískusýningu.

Í kaffitímanum var boðið upp á heimabakaðar bollur og jógúrtköku.
Eftir kaffi fór að hellirigna svo við fórum upp í sal og spiluðum „Varúlf“ sem þeim þótti mjög skemmtilegt. Þá skelltum við okkur í pottinn og tvö herbergi æfðu leikrit fyrir kvöldið.
Í kvöldmat var svo ávaxtasúrmjólk og brauð með áleggi. Eftir matinn hófst kvöldvakan þar sem stelpurnar í Hamraveri og Skógarveri sáu um skemmtunina. Stelpurnar stóðu sig með stakri prýði og allir skemmtu sér konunglega. Boðið var upp á matarkex og mjólk áður en stelpurnar fóru upp í rúm. En ekki leið á löngu áður en blásið var til náttfatapartýs þar sem var dansað, sungið, farið í limbó, sögð var saga og allir fengu frostpinna. Bænakonurnar sáu svo um að koma öllum í ró og gekk það mjög vel allar sváfu vel í nótt.
Lúsmýið er aðeins farið að láta vita af sér hér og nokkrar stelpur komnar með þónokkur bit. Þær bera sig allar mjög vel og við erum duglegar að bera á þær kláðastillandi krem.

Kær Ölverskveðja,
Erla Björg, forstöðukona