Við komum upp í Ölver um klukkan eitt í dásamlegu veðri, það hafði rignt um morguninn en það rættist úr veðrinu og hélst þurrt og milt allan daginn. Við byrjuðum á að fara inn í matsal og fá okkur karamelluskyr og brauð með áleggi áður en stelpunum var raðað niður á herbergin þar sem allar vinkonur fengu að vera saman í herbergi. Þá fengu þær tíma til að koma sér fyrir og skoða sig um áður en þær fóru í göngutúr um svæðið þar sem þær sáu íþróttahúsið, leiktækin og fleira. Þegar það var búið var komið inn í kaffitíma og fengið brauðbollur með áleggi, snúða og kanellengjur.
Eftir kaffi var farið í ratleik þar sem hvert herbergi hélt hópinn. Byggðist leikurinn upp á að stelpurnar næðu að kynnast hver annarri. Þegar þær höfðu lokið honum og farið á allar stöðvarnar var frjáls tími þar sem þær nýttu í að leika sér meðal annars í hoppukastalanum sem vakti mikla ánægju.
Í kvöldmatnum var boðið upp á grænmetisbuff og kúskús. Þá var haldið á kvöldvöku þar sem tvö herbergi, Skógarver og Fuglaver, sáu um leiki og leikrit. Einhverjar viðukenndu að vera með sviðsskrekk en það kom ekki að sök þær stóðu sig allar vel. Á kvöldvökunum syngjum við mikið, hlustum á hugleiðingu og biðjum kvöldbænirnar. Stelpurnar tóku virkan þátt sungu vel og hlógu að leikritum og leikjum hinna stelpnanna. Síðan var farið niður og fengið eplabita og banana áður en komið var að því að fara í háttinn, pissa og tannbursta og svo þurfti hvert herbergi að komast að því hver yrði þeirra bænakona. Hvert herbergi fær sína bænakonu sem passar sérstaklega vel upp á sínar stelpur, les fyrir þær á kvöldin, biður bænir og kemur þeim í ró. Fyrsta kvöldið er oft áskorun hjá mörgum stelpunum sem fara að hugsa til mömmu og pabba þegar þær leggjast á koddann en að lokum sofnuðu allar vært.
Bestu kveðjur úr Ölveri
Mjöll, forstöðukona