Dagurinn byrjaði snemma, flestar ef ekki allar voru vaknaðar um sjö, allar spenntar fyrir að upplifa Ölver og kynnast hinum stelpunum.
Morgunmatur var klukkan níu, þær orðnar svangar og borðuðu vel. Í boði var hafragrautur, súrmjólk og morgunkorn. Eftir morgunmatinn var farið út að fánastöng og sunginn fánasöngurinn, “Fáni vors sem friðarmerki” á meðan fáninn var dreginn að húni, það er venja sem við gerum alla morgna hér í Ölveri. Að því búnu var farið inn að laga til í herbergjunum áður en haldið var á morgunstundina. Þar heyrðu þær dæmusögu sem Jesú sagði og svo æfðu þær sig í að fletta upp í Nýja testamentinu sem flestar höfðu haft með sér hinar fengu lánað. Að auki voru sungin nokkur lög.
Þá var komið að því að fara út í íþróttahús og fara í brennó. Búið var að skipta stelpunum upp í lið og svo var farið yfir reglurnar í brennó. Að því loknu var komið að hádegismat, kjötbollur, kartöflumús og brún sósa, sem þær borðuðu vel af.
Eftir hádegi fórum við í göngutúr út að Steininum í fjallinu, örfáar gáfust upp á leiðinni en flestar fóru alla leið upp að honum og náðu næstum að snerta skýin, þar sem þoka lá yfir fjallinu. Þær voru ánægðar að fá ferkst loft og reyna aðeins á sig og mikið voru þær glaðar að koma í kaffitímann, fá gómsætt kryddbrauð og súkkulaðiköku sem verðlaun fyrir góða göngu.
Nú var komið að hæfileikakeppni þar sem stelpurnar sýndu hinum hvað í þeim bjó. Þrír frægir dómarar komu að dæma og fannst stelpunum það mjög skemmtilegt. Einhverjar töldu þó að foringjarnir væru að leika þessa frægu dómarar, en hvað veit maður!
Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk og brauð og svo var komið að kvöldvöku þar sem Lindaver og Fjallaver sáu um leiki og leikrit sem tókst vel hjá þeim. Eftir skemmtilega kvöldvöku voru ávextir í boði og svo var haldið í háttinn. Þegar þær voru að klára að hátta voru þær boðnar í óvæt náttfatapartí þar sem þær dönsuðu við nokkur lög og síðan hlustuðu þær á skemmtilega sögu á meðan þær borðuðu frostpinna þetta fannst þeim ánægjulegur endir á góðum degi. Svo var farið að tannbursta og beint í ból. Bænakonurnar komu í herbergin og sátu hjá þeim svolitla stund eða þar til flestar sofnuðu.
Kveðjur frá okkur úr Ölveri
Mjöll, forstöðukona