Nóttin gekk vel allar sváfu vært og flestar sváfu til klukkan hálf níu þegar við vöktum þær.

Eftir morgunmatinn, hafragrautinn, súrmjólkina og morgunkornið var fánastundin, allar farnar að læra á skipulagið þannig að það tók ekki langan tíma að koma sér í stígvel og út að fánastöng. Á morgunstundinni flettum við áfram í Nýja testamentinu, ræddum um það að Jesú væri alltaf hjá okkur. Eins héldum við áfram að tala um þakklætið,  en við höfðum einmitt rætt um það á kvöldvökunni kvöldinu áður þegar við útbjuggum þakkarkörfu sem stelpurnar settu þakkirnar sínar í.

Eftir brennó og hádegismat sem var kakósúpa var farið í Ölvers leikana. Þar var keppt í hinum ýmsu greinum.  Sippi, kjötbollukasti, ljóðagerð og fleiru. Eftir það allt var kærkomið að fara inn og fá sér hressingu, sem samanstóð af pizzasnúðum, smákökum og skúffuköku.

Eftir kaffitímann var hoppukastalinn settur í gang og farið í heita pottinn. Hvert herbergi fékk sinn tíma í pottinum á meðan voru hinar að undirbúa sig eða leika sér, flestar í hoppukastalanum. Það var búið að rigna allan daginn þannig að allt var vel blautt en milt veður og þeim fannst frábært að hoppa í bleytunni. Allar komu vel blautar inn, en enginn er verri þó hann vökni og þvílíkt sem þær voru sælar, brostu út að eyrum. 

Í kvöldmatnum voru kjúklingaleggir og kartöflubátar og svo fengu þær óvæntan eftirrétt rískökubita, það var nú ekki slæmt. Hamraver og Hlíðarver sáu um leiki og leikrit á kvöldvökunni og hepnaðist það vel hjá þeim. 

Það voru þreittar en sælar stelpur sem lögðust á koddann eftir annasaman dag, heimþráin á undanhaldi enda dvölin hálfnuð.

Ölverskveðjur
Mjöll, forstöðukona