Fös (5.7.19) Flestar sofandi í morgun kl 9:30 þegar vakið var. Morgunmatur, fánahylling, taka til og biblíulestur. Á biblíulestirnum talaði ég um boðorðin 10. Eftir það var brennó sem er að verða mjög spennandi, nokkur lið jöfn að berjast um sigurinn. Í hádegismat var grjónagrautur. Svo var haldið útí óvissuna – í ævintýraferð! Kl 13 kom rúta að sækja okkur og fór með okkur á Akranes. Fyrsta stopp var Langisandur, baðstönd með ljósum sandi. Þær óðu útí sjóinn, bjuggu til sandkastala, láu í sólbaði og skrifuðu í sandinn. Yndislegt veður, sól, heitt og heiðskýrt. Þar borðuðum við kaffið; heimabakaðar subway kökur (mjög kúl) og pizzasnúða. Svo röltum við yfir í sundlaugina. Troðfylltum klefan og rennibrautina. Margar voru líka bara þreyttar og láu eins og skötur í pottunum. Kl 17:30 kom svo rútan og tók okkur til baka. Mjög svangar stelpur hökkuðu svo í sig fiskibollur og hrísgrjón með karrýsósu í kvöldmatinn. Við ætluðum að vera með leik um kvöldið, en í ljósi þess að 3 stelpur sofnuðu á kvöldvöku, ákváðum við að breyta planinu og hafa kósý kaffihúsakvöld. Breyttum uppröðuninni í matsalnum, hentum í vöfflur og kakó og vorum með leikrit, sögur og brandara fyrir örmagna stelpur sem voru fljótar að sofna þegar bænakonurnar voru búnar að spjalla og biðja með þeim. Þær sem enn voru vakandi sofnuðu við foringjana syngja og spila róleg lög frammi á gangi. Nokkrar stelpur voru bitnar í dag, flugurnar komu með góða veðrinu. Engin stelpa er með mikil ofnæmisviðbrögð né að farast úr kláða. Við lokum öllum gluggum á næturnar og erum með viftur í gangi og opnar herbergishurðir.