Í gær komu hingað upp í Ölver 30 dásamlegar stelpur! Við fundum strax í rútunni að þetta ætti eftir að vera góð vika. Í hópnum ríkir jákvæður og góður andi og virðing fyrir staðnum, starfsfólki og ekki síst hvorri annarri.

Við byrjuðum á að skipta hópnum niður í herbergi. Allar vinkonur fengu að vera saman. Hópurinn er það lítill að við nýtum bara fimm barnaherbergi og höfum aldrei fleiri en 6 í hverju herbergi. Rosa kósý og nóg pláss. J Þegar stelpurnar voru búnar að koma sér fyrir með aðstoð foringjanna var boðið upp á jarðaberjajógúrt og smurt brauð í hádegismat og borðuðu allar vel.

Eftir hádegismatinn ákváðum við að nýta veðrið vel og fórum með allar niður í gönguferð niður að á. Þær sem vildu gátu dýft tásunum ofan í (sumar fóru nú aðeins lengra en það) og buslað dálítið. Svo var komið til baka í Ölver og farið í nokkra nafnaleiki á fótboltavellinum.

Eftir kaffitímann voru herbergin svo send út í samvinnuratleik um svæðið. Þar gafst þeim góður tími til að kynnast staðnum og hvorri annarri betur áður en brennókennslan fór fram úti í íþróttahúsi. Það þurfti jú að þjálfa þær aðeins fyrir brennókeppnina sem hófst formlega fyrir hádegi í dag.

Eftir kvöldmatinn, þar sem boðið var upp á grænmetisbuff, kúskús og ferskt grænmeti, var hóað í kvöldvöku í kvöldvökusalnum og Fjallaver og Skógarver buðu upp á skemmtiatriðin. Lilja foringi las svo fyrir þær söguna “Þú ert frábær” og minnti þær á að þær eru allar dýrmætar eins og þær eru. Álit annarra breytir engu þar um. Það eina sem skiptir máli er að muna að þær eru fullkomið sköpunarverk Guðs og hann elskar þær eins og þær eru.

Eftir kvöldvökuna týndust bænakonurnar og stelpurnar voru sendar út á náttfötunum að finna sína bænakonu. Bænakonur eru foringjar sem koma inn á herbergi barnanna í lok flokks og eiga með þeim notalega stund við lestur, spjall og kvöldbænir áður en farið er að sofa. Svefninn gekk alveg áfallalaust og var komin góð kyrrð í húsið um ellefu.

Þessar stelpur eru mjög skemmtilegar og við starfsfólkið hlökkum mikið til að eyða tíma með þeim í þessari viku og kynnast þeim betur.