Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar í gærmorgun og tilbúnar í daginn. Sumar vöknuðu reyndar aðeins fyrr en við hefðum viljað en það er eðlilegt á fyrsta degi á nýjum stað og var svo sem ekki við öðru að búast.

Dagskráin í Ölveri á morgnanna er nánast alltaf eins. Við byrjum á morgunmat og fánahyllingu og eftir það fara stelpurnar að taka til í herbergjunum sínum og undirbúa þau fyrir stjörnugjöf í hegðunar- og snyrtimennskukeppninni. Eftir tiltektartímann er blásið í morgunstund í samverusalnum. Í gær fengu þær að heyra um mikilvægi þess að leyfa orði Guðs að vera okkur vegvísir í lífinu. Við fórum yfir það hvernig starfsfólkið í Ölveri starfar hér af köllun til að deila með börnunum reynslunni af því að byggja líf okkar og athafnir á Guðs orði og fræddum þær um hvernig það var einmitt af þeirri sömu köllun sem Kristrún Ólafsdóttir stofnaði sumarbúðirnar í Ölveri á sínum tíma. Stelpurnar lærðu minnisversið “Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegi mínum.” (Sálm 119.105) og fengu að sjá myndband um mennina sem byggðu húsin sín annars vegar á sandi og hins vegar á bjargi.

Eftir hádegismatinn, kjötbollur, kartöflumús og ferskt grænmeti, fórum við með allan hópinn í fjallgöngu í dásamlegu veðri. Stelpurnar voru duglegar að ganga og klifra upp fjallið og undu sér svo vel við berjatínslu og spjall. Í kaffinu fengu þær svo kanillengjur og snúða úti á tröppum.

Tíminn eftir kaffi var nokkuð frjáls. Við blésum í hárgreiðslukeppni fyrir þær sem vildu, settum í gang hoppikastala í lautinni, buðum upp á pott og Hamraver og Lindarver undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvöku kvöldsins. Þær fengu svo skyr og brauð í kvöldmatinn og svo var haldin kvöldvaka með tilheyrandi stuði.

Stuðið var þó ekki búið þá. Eftir að allar voru tilbúnar í náttfötum og komnar upp í ból að bíða eftir sinni bænakonu upphófust óp og læti með potta og pönnuglamri og söng. Það var komið NÁTTFATAPARTÝ. Mikið var það gaman! – Dansleikir og leikrit, ís og almenn partýlæti einkenndu húsið næsta klukkutímann. Allir fóru sáttir að sofa eftir góðan dag og sváfu alveg þangað til vakið var kl. 09:00.

Þessar stelpur una sér mjög vel við frjálsan leik og almennt lítið um uppákomur aðrar en bara skemmtilegar. Þær hlusta vel á fræðslu og taka þátt í umræðum og hafa mikið til málanna að leggja. Við starfsfólkið erum með háleit markmið fyrir dagskrá dagsins sem inniheldur bæði sköpun og hreyfingu. Það verður gaman að segja frá því á morgun.