Dagurinn í gær var frábær og öll okkar háleitu markmið stóðust. Á morgunstundinni lærðu stelpurnar söguna um týnda sauðinn og hvernig hann gleðst yfir hverri og einni okkar. Þær fengu að sjá skemmtilegt myndband til að festa söguna betur í minni og höfðu gaman af því. Eftir brennókeppni var svo hádegismatur þar sem boðið var upp á ekta Ölvers kakósúpu með kornflexi og smurt brauð.

Eftir hádegismatinn hófst svo stöðvavinna og það var svo skemmtilegt hjá okkur! Við buðum upp á fimm stöðvar, vinabandastöð, skreytingastöð, bakstursstöð, slímgerðarstöð og dansstöð. Stelpurnar ferðuðust á milli stöðva með herbergisfélögum sínum og stoppuðu í svona tuttugu mínútur á hverri stöð. Þær lærðu að gera falleg vinabönd, hnoðuðu kókoskúlur og skreyttu muffins, bjuggu til slím (ekkert borax, engar áhyggjur) og lærðu dans hjá flotta dansaranum okkar henni Gertrudu.

Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og óskreyttar múffur og eftir kaffi fór fram fyrri hluti Ölversleikanna. Keppt var í hlaupi, sippi, rúsínuspýti og jötunfötu. Svo var potturinn opinn, hoppikastalinn í gangi og Hlíðarver undirbjó skemmtiatriði fyrir kvöldvöku kvöldsins.

Á kvöldvökunni var mikið stuð. Skemmtiatriðin voru frábær og stelpurnar fengu svo að dansa allar saman dansinn sem þær höfðu lært í stöðvavinnunni. Eftir hugleiðinguna þar sem hún Kristín foringi fjallaði um mikilvægi þess að muna að þakka fyrir það sem við höfum í lífinu fóru stelpurnar niður í matsal þar sem búið var að undirbúa kaffihúsakvöld. Borðunum var raðað eftir herbergjum og skreytt með pappírsdúkum og blómvöndum sem þær höfðu búið til í stöðvavinnunni. Svo fengu þær múffurnar sínar af bakstursstöðinni og kókoskúlurnar. Við spiluðum huggulega tónlist og áttum saman notalega stund.

Það gekk vel að fara að sofa eftir góðan dag og nú er bara kominn veisludagur í þessum frábæra flokki. Það verður eitthvað.

Við minnum ykkur svo á að skoða myndirnar á myndasíðunni okkar! Hlekkurinn á myndir úr flokknum er hér.