Jæja, þá er veisludagur búinn og komið að brottfarardegi.

Dagurinn í gær hófst eins og allir aðrir dagar í Ölveri, með morgunmat, fánahyllingu, morgunstund og brennókeppni. Á morgunstundinni fjölluðum við um það hvernig við eigum að elska náungann eins og sjálfar okkur. Við fórum yfir söguna um miskunnsama samverjann og ræddum um mikilvægi þess að koma vel fram við alla, ekki bara þá sem standa okkur nærri eða er auðvelt á láta sér líka við. Öll erum við jú jafnmikilvæg í augum Guðs.

Eftir hádegismatinn (fiskibollur og hrísgrjón með karrýsósu og fersku grænmeti) var hæfileikakeppni. Tveir heimsfrægir dómarar (mögulega foringjar í búning) mættu á svæðið og kynnirinn var að sjálfsögðu jólatré. Við fengum að sjá dans- og söngatriði, myndlist og leikrit og hlusta á brandara. Eftir hæfileikakeppnina fóru stelpurnar út í seinni helming Ölversleika. Keppt var í ljóðaskrifum, furðuverugerð, stígvélasparki og breiðasta brosinu.

Í kaffinu var boðið upp á veislugóðgæti, rice krispies kökur, gerbollur og skúffuköku. Eftir kaffi var svo frjáls tími, heitur pottur og undirbúningur fyrir veislukvöld. Foringjarnir stóðu í ströngu við að flétta hár á hreinum og fínum stelpum og kl. 18:30 var svo blásið til pítsuveislu í fallega skreyttum matsalnum.

Á kvöldvökunni sýndu foringjarnir leikrit. Það er hápunktur dvalarinnar fyrir marga að sjá foringjana bregða sér í hin ýmsu gervi og leika brandara af sinni alkunnu snilld. Stelpurnar fengu svo ís í lok kvöldvökunnar og hlustuðu á sögu úr bókinni Við Guð erum vinir. Sagan fjallaði um það hvernig við getum með athöfnum okkar teiknað fallega mynd af Jesú.

Svefninn gekk vel eins og alltaf í þessum flokki og nú er bara kominn brottfarardagur! Stelpurnar eru búnar að pakka dótinu sínu og setja það út á plan. Síðustu morgunstundinni var að ljúka og nú eru foringjarnir úti í íþróttahúsi með hópnum þar sem fram fer foringjaleikur við vinningsliðið í brennó. EFtir hádegi verður hoppikastalinn settur í gang og stelpurnar geta leikið sér aðeins á svæðinu og kvatt sína uppáhaldsstaði. Svo verður kveðjustund og verðlaunaafhending áður en þær skunda allar út í rútu, líklega þreyttar en sælar.

Þetta er búið að líða ótrúlega hratt og margt skemmtilegt verið gert. Flokkurinn var ekki margir dagar en við reyndum að hafa sem fjölbreyttasta dagskrá fyrir þær. Þær voru mjög móttækilegar og jákvæðar gagnvart öllu sem var boðið upp á sem gerði þetta allt ennþá skemmtilegra fyrir okkur starfsfólkið.

Ég er alltaf jafn þakklát fyrir þennan stað og allt fólkið sem að honum stendur. Það er kröftugur hópur sjálfboðaliða sem heldur starfinu gangandi hér í Ölveri frá ári til árs og miklar framfarir orðið undanfarin ár á aðstöðu fyrir bæði börn og starfsfólk. Það eru forréttindi að vera treyst fyrir að leiða starfið hérna þó ekki nema í stuttan tíma á hverju ári og ég nýt þess í hvert sinn að dvelja hér í þessu fallega, skapandi og kærleiksríka umhverfi. Ég hlakka til að koma aftur að ári og vonandi fæ ég þá að hitta einhverjar af þessum skemmtilegu stelpum sem dvöldu hér í vikunni.

Minni á myndirnar sem er að finna hér.

Takk fyrir mig, Ásta Sóllilja, forstöðukona.