Í dag mættu 30 brosandi unglingsstelpur í Ölver, margar alvanar staðnum en þó nokkrar sem eru að koma í fyrsta skipti.

Stelpurnar byrjuðu á því að koma sér fyrir, allar vinkonur saman í herbergi og hingað til eru allir alsælir með herbergin sín og herbergisfélaga.

Eftir að allir voru búnir að búa um sig og fá sér hádegismat fór allur hópurinn út í leiki þar sem áhersla var lögð á að læra nöfn allra í flokknum. Þar sem við ætlum að búa svona margar saman næstu vikuna langar okkur að geta kallað á hver aðra með nafni og það helst frá fyrsta degi, það hefur gengið vonum framar.

Eftir kaffi fóru stelpurnar í ratleik um svæðið þar sem þær fengu tækifæri til að kynnast svæðinu örlítið betur sem og hver annarri á hverri stöð. Leikurinn reyndi á samvinnu hópsins og tókust þær á við þetta verkefni með herbergisfélögum sínum.

Stelpurnar voru svangar eftir ratleikinn og borðuðu mjög vel í kvöldmatnum, ráðskonunni til mikillar gleði.

Kvöldvakan var með örlítið óhefðbundnu sniði í kvöld þar sem starfsfólkið sá um skemmtiatriði fyrir hópinn og fékk ágætt lof fyrir, og að sjálfsögðu var einnig mikið sungið líkt og tíðkast á kvöldvökunum hér í Ölveri.

Þegar kvöldvakan var búin og komið var að kvöldkaffi var búið að loka matsalnum! Matsalnum hafði verið breytt í dýrindis kaffihús, kertaljós og kósýheit. Michael Bublé sá um að róa stelpurnar fyrir smá sögustund en yfir kvöldkaffinu fengu stelpurnar að fræðast um Kristrúnu Ólafsdóttur stofnanda Ölvers.

Nú var komið að því að fara að hátta og stelpurnar margar orðnar frekar óþolinmóðar að vita ekki hver af starfsstúlkunum væri þeirra bænakona… forstöðukonan sendi þá herbergin út í smá bænakonuleit, hvert með sínar leiðbeiningarnar.

Stelpurnar voru þreyttar eftir daginn og komst fljótt ró í húsið eftir að allar bænakonurnar voru komnar í leitirnar.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Hádegismatur: Skyr, ávextir og pizzabrauð
Kaffi: Bananabrauð, kanillengjur og djús
Kvöldmatur: Tortilla með öllu tilheyrandi
Kvöldkaffi: Vöfflur og heitt súkkulaði