Viðburðarríkur rigningardagur hjá okkur í Ölveri í dag.

Stelpurnar voru vaktar með tónlist um kl. 9:15 í morgun þar sem það var morgunmatur kl. 9:30. Unglingunum okkar fannst pínu erfitt að vakna en voru þó fljótar að sækja brosið og voru ánægðar með tónlistarval starfsfólksins. Eftir morgunmatinn tók við fánahylling og tiltekt í herbergjum (hluti af hegðunarkeppni vikunnar). Þegar öll herbergi voru orðin hrein og fín var komið að morgunstund. Morgunstundin var með hefbundnu sniði í dag, söngur og smá sögustund. Morgunstundinni var svo slitið með tilkynningu um brennóliðin, en fyrsta umferð í brennókeppni flokksins var einmitt næst á dagskrá. Eftir brennó var svo komið að hádegismat.

Eftir hádegi var farið í lauflétta gönguferð þar sem stelpurnar fengu að sjá og upplifa hve ótrúlega fallegt landið okkar er. Það ringdi vel á stelpurnar í gögnunni og því voru þær afskaplega kátar og þakklátar þegar þær komu tilbaka upp í Ölver beint í kaffitíma og heitt kakó. Þegar kaffitímanum var lokið gafst öllum tækifæri á að fara í pottinn eða sturtu, flestar þáðu það með þökkum og fóru þær nánast allar í pottinn.

Á kvöldvökunni sá Lindarver (eitt af herbergjunum) um skemmtiatriði og voru þær bæði með leik og leikrit. Það var því mikið hlegið á kvöldvökunni í kvöld. Eftir kvöldvökuna var stelpunum sagt að fara og fá sér sæti niðri í matsal þar sem dagskránni væri ekki alveg lokið þetta kvöldið. Þær voru ekki lengi að fylgja þeim fyrirmælum og spennan leyndi sér ekki. Þegar í matsalinn var komið birtust þrjár óþekkjanlegar konur sem dönsuðu og löbbuðu í takt við popp tónlist. Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar stelpurnar komust að því hvað þær væru að fara að gera, það var komið að Ölver‘s Top Model. Leik/keppni sem snýst um og reynir á samvinnu hópsins og sköpunargáfu, hver hópur fékk tvo ruslapoka, band, skæri og límband. Verkefni hópanna var að búa til klæðnað úr ruslapokunum og máttu þær aðeins nota það sem þær fengu afhent og það sem hægt er að finna úti í náttúrunni. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og var starf dómaranna því alls ekki auðvelt í þetta skiptið. Þegar tískusýningunni var lokið og búið var að taka myndir af öllum hópum fengu stelpurnar kvöldkaffi og fóru svo beina leið að græja sig fyrir svefninn.

Viðburðarríkur dagur á enda og það komst fljótt ró í húsið eftir að allir voru búnir að hátta og bursta.

Þangað til næst
Alla Rún, forstöðukona

Morgunmatur: Hafragrautur, morgunkorn og súrmjólk
Hádegismatur: Steiktur fiskur, hrísgrjón og ferskt grænmeti
Kaffi: Brauðbollur og súkkulaðikaka
Kvöldmatur: Blómkálssúpa og brauð
Kvöldkaffi: Melónur og bananar