Furðulegur en kraftmikill dagur í Ölveri í dag.

Stelpurnar voru komnar á fætur um kl. 9:30 í morgun og dagskrá morgunsins með fremur hefðbundnu Ölverssniði, morgunmatur, tiltekt, morgunstund og brennó.

Eftir hádegismat var blásið til FURÐULEIKA! Stelpunum var þá skipt upp eftir herbergjum og hvert herbergi einkennt með lituðu Ölvers-vesti. Þær áttu svo að fara á milli stöðva og leysa hinar ýmsu þrautir ýmist sem einstaklingar eða sem hópur. Þrautirnar voru margar hverjar virkilega furðulegar og var meðal annars keppt í eggjaboðhlaupi, furðuveru, grettum, BROSI, könglulóáannarri-boðhlaupi, matarkexáti, dans á blaði og seríoskrukku, svo fátt eitt sé nefnt.

Eftir kaffi var komið að nammi-spurningakeppni þar sem stelpurnar unnu 2-3 saman í því að safna nammi, hvert rétt svar gaf hópnum einn mola. Það vantaði ekki fróðleikinn í unglingsstelpurnar okkar og þær voru því enga stund að klára keppnina. Þegar allir hópar voru búnir að telja molana sína var opnað fyrir pottinn. Gula vinkona okkar ákvað að sýna sig rétt á meðan potturinn var opinn og því margar sem ákváðu að skella sér í pottapartý. Stelpurnar tóku sig til og hentu einum foringjanum í pottinn með góðri hjálp og samþykki frá forstöðukonunni.

Á kvöldvökunni sáu Fjallaver og Skógarver um skemmtiatriði og var hvort herbergi um sig með einn leik og eitt leikrit. Eftir kvöldvökuna þegar stelpurnar voru búnar að hátta sig og græja fyrir svefninn var þeim boðið upp í kvöldvökusal í bíókvöld þar sem þær horfðu á myndina The Parent Trap.  

Þrátt fyrir að vera í miklu stuði eftir myndina voru stelpurnar fljótar að komast í ró og sofna.

Ölverskveðja  
Alla Rún, forstöðukona

Morgunmatur: Hafragrautur, morgunkorn og súrmjólk
Hádegismatur: Hamborgarar og franskar
Kaffi: Kanilsnúðar og smákökur
Kvöldmatur: Pastasalat með öllu tilheyrandi
Kvöldkaffi: Popp yfir myndinni