Veisludagur!
Það var nokkuð hefðbundinn morgun hjá okkur hérna í Ölveri, morgunmatur, tiltekt og morgunstund og brennó. Það var spilað til úrslita í brennókeppninni og því orðið ljóst að liðið Dökk-dökk-dökk-hvítur spilar við foringjana á heimfarardegi.
Eftir hádegismat var komið að hæfileikasýningu/-keppni, þar sýndu stelpurnar m.a. dans, söng, myndlist, lýsingarorðasögu og upplestur. Dómararnir í keppninni voru skrautlegir og afar hressir og reyndu sitt besta til að fá stelpurnar aðeins til að hlægja inn á milli atriða í sýningunni/keppninni.
Gula vinkona okkar á himnum sýndi sig á hárréttum tíma og birtist um leið og foringjarnir opnuðu fyrir pottinn og stelpurnar fóru að græja sig fyrir veislukvöld. Það fóru allir í sturtu eða í pottinn fyrir veislukvöldið. Stelpurnar voru duglegar að setja í hárið á hver annarri og hjálpast að við að punta sig fyrir kvöldið, bæði inni á herbergjunum sem og úti í sólinni.
Blásið var til veislukvöldverðar kl. 19:00 en búið var að skreyta og breyta matsalnum í tilefni dagsins/kvöldsins. Ráðskonan sló algjörlega í gegn í veislukvöldmatnum og kölluðu stelpurnar hana fram og klöppuðu fyrir bæði henni og bakaranum. Stelpurnar voru mjög duglegar að borða enda búnar að vera úti í sólinni nánast slitlaust frá hádegi.
Eftir veislukvöldverðinn var komið að veilsukvöldvöku. Þar sáu foringjar og starfsmenn um skemmtiatriði og fengu mikið lof fyrir, mjög mikið hlegið. Eftir kvöldvökuna fór hópurinn allur saman út og grillaði sykurpúða og átti mjög góða stund saman.
Stelpurnar voru afar þakklátar eftir daginn og voru fljótar að fylgja fyrirmælum þegar við komum aftur upp í hús.
Ölverskveðja
Alla Rún, forstöðukona
Morgunmatur: Hafragrautur,
morgunkorn og súrmjólk
Hádegismatur: Grænmætisbuff, cous cous, sætarkartöflur og salat
Kaffi: Brauð og sjónvarpskaka
Kvöldmatur: Pizza
Kvöldkaffi: Smákökur