Það voru 32 dásamlegar stelpur sem mættu upp í Ölver í dag tilbúnar í viðburðaríka og ævintýralega viku. Veðrið var einstaklega gott, hlýtt og sólin lét sjá sig af og til og yljaði okkur. Við byrjuðum á því að safnast saman inní matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig og farið var yfir helstu atriði. Þá var stelpunum skipt niður í herbergi en þær eru ýmist 4-8 saman í herbergi. Þær sóttu síðan farangurinn sinn og komu sér fyrir. Þá var blásið í hádegismat, jarðaberjaskyr og brauð með áleggi sem rann ljúft niður. Eftir matinn fóru þær í ratleik um svæðið þar sem þær kynntust svæðinu betur og því sem það hefur uppá að bjóða og hvor annarri, með því að svara alls kyns spurningum. Þá var haldið inn í kaffi þar sem nýbökuð kaka beið þeirra ásamt ávöxtum og kexi.

Eftir kaffi fórum við í hópeflisleiki úti í góða veðrinu og síðan inn í hús þar sem þær föndruðu dagbækur sem þær ætla að skrifa í (eða teikna) upplifun sína eftir daginn. Þá borðuðu þær kvöldmat en í matinn var hakk og spaghetti ásamt hvítlauksbrauði. Eftir matinn var kvöldvaka þar sem farið var í leiki, mikið sungið og foringjarnir sýndu leikrit sem vakti mikla lukku og mikið var hlegið.

Þá voru ávextir í kvöldkaffi en þegar stelpurnar héldu að þær ættu að fara að sofa var blásið í lúðurinn og þær tóku þátt í svokallaðri „bænakonuleit“ en þær fengu nokkrar vísbendingar og þurftu síðan að leita úti að sinni bænakonu sem verður þeirra herbergisforingi alla vikuna. Þetta þótti þeim mjög spennandi og ekki spilltu búningarnir sem starfsfólkið höfðu farið í fyrir.

Nú er að komast á ró í húsið og vonum við svo sannarlega að allir eigi eftir að sofa vel í nótt. Fleiri fréttir munu svo berast á morgun.

Kær kveðja úr Ölveri