Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar í morgun og hófst dagurinn á morgunverði, þar sem boðið var upp á morgunkorn og hafragraut. Þá var fáninn hylltur en það er rótgróin hefð hér í Ölveri. Eftir fánahyllingu tóku stelpurnar til í herbergjunum sínum enda hegðunar-og snyrtimennskukeppnin í fullum gangi 😉

Á fyrstu morgunstundinni lærðu stelpunar dæmisögu Jesú um mennina tvo sem byggðu hús sitt annars vegar á bjargi og hins vegar á sandi og hversu mikilvægt er að byggja líf sitt á góðum grunni. Út frá því fórum við í smá lífsgildisvinnu og var ótrúlega gaman að upplifa hvað þær þekktu mörg góð og falleg orð yfir lífsgildi.

Eftir morgunstundina var farið í brennó sem er önnur sterk hefð hérna hjá okkur.

Þá var blásið í hádegismat og fengu þær karrýfiskirétt með grænmeti og hrísgrjónum.

Eftir mat var haldið niður að Hafnará í veðurblíðunni þar sem þær fengu að busla og baða sig í sólinni en einnig völdu þær sér allar stein til að fara með heim í Ölver. Þar tóku nýbökuð skinkuhorn og smákökur á móti þeim sem þær borðuðu með bestu lyst.

Eftir kaffitímann var þeim skipt upp í tvo hópa, annar hópurinn fór að dansa út í íþróttahúsi en hinn málaði á steinana sína og völdu orð/lífsgildi sem talaði sérstaklega til þeirra og skrifuðu á hann. Gaman var að fylgjast með stelpunum sem voru mjög skapandi og flottar í þessari vinnu.

Þá var farið í heita pottinn og tvö herbergi æfðu leikrit fyrir kvöldið.

Í kvöldmat var grænmetisbuff og cous cous þegar allir voru orðnir saddir var blásið í kvöldvöku. Þar var sungið, farið í leiki og sýnd leikrit en síðan sagði ein af starfsstúlkunum okkar stelpunum frá sjálfri sér en hún er í landsliðinu á gönguskíðum og hefur keppt á HM. Ræddi hún við stelpunar um stóra drauma, hver markmið hennar eru og hvernig hún vinnur að þeim. Stelpurnar voru mjög áhugasamar og fullar aðdáunar á þessari flottu fyrirmynd.

Nú er komin ró í húsið og allar steinsofnaðar eftir viðburðaríkan, sólríkan og einstaklega ánægjulegan dag.