Stelpurnar voru vaktar í morgun kl.9 með fögru gítarspili og söng. Dagurinn hófst á morgunverði að vanda. Þá var fáninn hylltur og síðan tók við hin daglega tiltekt.
Á morgunstundinni fengu stelpurnar að heyra söguna „Þú ert frábær“ sem er dásamleg saga sem minnir okkur á hversu dýrmætar og einstakar við erum, hver á sinn hátt. Einnig minnir hún okkur að dæma ekki aðra heldur elska náunga okkar sem og okkur sjálfar. Eftir morgunstundina var farið í brennó og hófst brennókeppnin okkar formlega. Búið er að skipta stelpunum í 6 lið og keppast þær um að verða brennómeistarar Ölvers.
Í hádegismatinn voru kjúklingaleggir, kartöflubátar, cocktailsósa og salat.
Eftir matinn var haldið áfram í „sjálfsvinnunni“. Stelpurnar bjuggu sér til stjörnur þar sem þær skrifuðu jákvæða staðhæfingu til sjálfra síns, lituðu myndir með hvatningarskilaboðum og lærðu að gera vinabönd. Hópurinn skiptist síðan á að fara inní kvöldvökusal í slökun og leidda hugleiðslu.
Í kaffitímanum fengu þær nýbakaðar brauðbollur og jógúrtköku. Eftir kaffi var farið í hárgreiðslukeppni þar sem margar mjög skemmtilegar, fallegar sem frumlegar, hárgreiðslur litu dagsins ljós.
Þá var farið í heita pottinn og eitt herbergi æfði leikrit fyrir kvöldið. Í kvöldmat var síðan tómatpasta og pizzabrauð.
Kvöldvakan var á sínum stað og þar var mikið fjör og gaman eins og alltaf. Loks þegar stelpurnar héldu að þær ættu að fara að sofa voru þær rifnar upp í náttfatapartý 😉 Þar var mikið dansað, farið á ljónaveiðar, þær fengu að sjá leikrit, blá skrítin vera kíkti í heimsókn með beljuna sína og einhvern veginn náði hún að mjólka út úr henni frostpinna.
Ró var komið í húsið um miðnætti og ætlum við að leyfa þeim að sofa örlítið lengur á morgun.
Fleiri fréttir koma inn á morgun en við sendum kærar kveðjur úr Ölveri.