Það er aldeilis búið að vera frábært hér í fókusflokki hjá okkur. Sólin búin að skína á okkur enn einn daginn og gleðin svo sannarlega við völd. Stelpurnar voru vaktar aðeins seinna í morgun vegna þess að þær fóru frekar seint í háttinn eftir náttfatapartýið, það tekur tíma að ná sér niður eftir það 😉 Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt var haldið á morgunstund eða biblíulestur. Þar fengu stelpurnar að heyra dæmisögu Jesú um talenturnar. Hún kennir okkur hversu mikilvægt er að þekkja styrkleika okkar og nota þá hæfileika sem okkur hafa verið gefnir.
Eftir morgunstundina var brennókeppninni haldið áfram. Í hádegismatinn voru kjötbollur, kartöflumús, brún sósa og sulta.
Eftir hádegismatinn héldum við út í góða veðrið og fórum í skemmtilega útileiki. Kaffið var drukkið úti, þar sem þær gæddu sér á heimabökuðum kanilsnúðum og súkkulaðiköku. Einnig var boðið uppá gamaldags vínarbrauð úr restinni af kartöflumúsinni, það fannst þeim skrítið en mjög gott 😉
Eftir kaffi var föndurstund þar sem þær vatnslitamáluðu mynd af ljóni og skrifuðu inní makkann á því styrkleikana sína. Þá fóru öll herbergin í pottinn eða sturtu og tvö herbergi undirbjuggu leikrit fyrir kvöldið.
Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk og brauð með áleggi.
Það var mikið fjör á kvöldvökunni eins og alltaf og þegar þær komu niður af henni var búið að breyta matsalnum í kaffihús. Þar var boðið uppá vöfflur og heitt kakó við kertaljós og lifandi tónlist.
Bænakonurnar fóru svo inná herbergin þegar allar voru tilbúnar í háttinn og ró er að komast á. Á morgun er síðasti heili dagurinn okkar saman, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Þá er veisludagur og heldur fjörið svo sannarlega áfram.
Kærleikskveðjur héðan úr Ölveri