Þá er veisludagur runninn upp. Stelpurnar vöknuðu hressar í morgun að vanda enda einstaklega góður hópur sem við höfum fengið til okkar þessa vikuna. Algjör draumur. Morguninn var hefðbundinn en á morgunstundinni lærðu þær söguna um sáðmanninn og hversu mikilvægt það er að standa með sér, þekkja sjálfan sig og vaxa upp sem sterk og góð manneskja. Þær lærðu lag sem þær geta notað til að sækja sjálfstraustið sitt og margt fleira.

Eftir morgunstundina var brennókeppninni haldið áfram og í ljós kom hverjir eru brennómeistarar Ölvers og fá að keppa við starfsfólkið á morgun.  

Í hádegismatinn var grjónagrautur og brauð með áleggi. Eftir matinn var stelpunum safnað inní sal og þeim tilkynnt að nú væru þær að halda inní ævintýraveröld. Eitt og eitt herbergi var svo leitt inní heim þar sem þær hittu m.a fyrir norn sem var búin að blanda ógeðisdrykk sem þær þurftu að smakka, trúð sem sýndi listir sínar, sjóræningja sem var heldur illa farinn og bláa veru sem þær könnuðust nú eitthvað við frá náttfatapartýinu, í þetta skiptið mjólkaði kýrin hennar sykurpúðum en ekki íspinna.

Í kaffitímanum fengu þær fjórar tegundir af heimabökuðu bakkelsi og eftir kaffi var potta og kósýstund þar sem þær undirbjuggu sig fyrir veislukvöldmáltíðina.

Þá hófst veislukvöldmatur sem var pizza og fengu þær ís í eftirrétt. Þá var blásið til kvöldvöku þar sem starfsfólkið sýndi leikrit af sinni alkunnu snilld.  

Bænakonurnar fóru svo inná herbergin sín og komu á ró eftir frábæran dag.

Á morgun er heimfarardagur, ótrúlegt en satt. Vikan hefur liðið svo hratt.

Kær kveðja héðan