30. júlí 2019.
Þetta eru nú meiri dásemdar dýrðarinnar stelpur sem eru í Krílaflokknum í ár. Og það sem ég er heppin með starfsfólk, frábæran kokk sem eldar listavel og frábæran bakara sem gerir bakstur góðan. Foringjarnir eru allir með tölu alveg frábærir og einnig er í flokknum aðstoðarforingjar sem standa sig ofurvel og með krílunum myndum við öll í heild gott „team“.
Stelpurnar vöknuðu snemma og nutu dagsins alveg í botn. Í morgunmat var hafragrautur, súrmjólk, mjólk, cerios og kornflex. Um þetta gátu stelpurnar valið frjálst og ég kenndi þeim gamlan og góðan söng um Hafragrautinn sem við sungum í upphafi morgunverðarins. Að morgunverði loknum fórum við út á náttfötunum og sungum til heiðurs okkur að sjálfsögðu, þegar foringi reisti fánann upp við hún. Við sungum á meðan, Fáni vor sem friðarmerki. Strax að því loknu tóku tveir aðstoðarforingjar okkur í smá hreyfileikfimi úti.
Eftir morgunleikfimina var haldið inn og stelpurnar klæddu sig í dagfötin, búðu um rúmin og snyrtu herbergin eftir fremsta megni. Að því loknu var blásið í lúðurinn og stelpurnar þustu upp í salinn þar sem ég var með bíblíulestur. Ég sagði þeim frá Biblíunni, að hún skiptist í tvo hluta og stelpurnar fengu að leita í Nýja testamentinu að nokkrum ritningarstöðum, og með góðri hjálp aðstoðarforingjanna gekk það mjög vel. Ég sagði þeim síðan frá Kristrúnu sem stofnaði Ölver á sínum tíma og ég fékk svaka góða hlustun allan tímann. Við lærðum lag í tveimur röddum við versið, Láttu nú ljósið þitt og sungum lag sem skiptist í tvo hluta, Við erum dropar. Í lok Bíblíulestrarins fengu stelpurnar að draga miða í „leynivinapotti“ og mikil spenna ríkti um að halda þessu leyndu. Síðar um daginn föndruðu þær ýmsar gjafir fyrir leynivin sinn sem þær svo hengdu í umslög á hurðinni að herbergjunum þeirra. Að því loknu héldum við í matsalinn þar sem fram fór heljarinnar föndurstund, þar sem ýmsir miðar voru föndraðir.
Í hádegismat var kakósúpa og brauð með. Eftir hádegismatinn voru Furðuleikar Ölvers, herbergin voru saman í liði og fóru á ýmsar stöðvar úti og leystu ýmsar þrautir.
Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku með súkkulaðikremi, nýbakaða og einnig nýbakaðan kanelsnúð.
Eftir kaffi var frjáls föndurstund, föndrað fyrir leynivininn og hægt að skrá sig í hæfileikasýningu sem hófst kl. 17.00. Þar tóku margar stelpur þátt og starfsfólkið sá um kynningar á atriðum þessara hæfileikaríku stúlkna. Kl. 18 fóru þrjú herbergi í að æfa atriði fyrir kvöldvöku og tvö herbergi í smá busl í heita pottinum sem er staðsettur beint fyrir utan skála Ölvers sumarbúða.
Í kvöldmat var hakk og spaghetti, mjög vinsælt og síðan hófst kvöldvakan sem var afar skemmtileg og með skemmtilegum stelpnakrílum.
Eftir kvöldvöku var boðið upp á hressingu, perur og vatn og stelpurnar héldu að þær ættu nú að fara í háttinn, en boðið var upp á óvænta vídeóstund og allir fengu popp. Stelpurnar höfðu það notalegt og horfðu á bíómynd, en allar tóku þær sængurnar með sér upp í kvöldvökusalinn og nutu bíókvöldsins óvænta.
Þreyttar en sælar stelpur fóru svo í háttinn, nær miðnætti að þessu sinni.
Með kærri kveðju úr Ölveri.
Rósa, forstöðukona í Krílaflokki 2019