Góðar fréttir héðan úr Ölver, við erum á heimleið (komum kl. 16) en sorglegu fréttirnar eru þær að nú er flokkurinn að verða búinn.
Dagurinn byrjaði á morgunmat, fánahyllingu, leikfimi. Síðan var farið inn í herbergin og sett ofan í töskurnar. Krílin sjálf ásamt foringjum og aðstoðarforingjum hjálpuðust að við að pakka ofan í töskur stelpnanna.
Kl. 11 var biblíulestur í kvöldvökusalnum okkar. Þar fórum við yfir og sungum öll nýju lögin sem við lærðum að syngja í flokknum, og þvílíkir söngfuglar sem stelpurnar allar eru, heppin ég að mega hlusta á þessar fögru barnaraddir ! Við fórum einnig yfir nokkra ritningarlestra sem við lærðum í flokknum og sjálfboðaliðar fengu að lesa upp nokkur vers. Þær eru orðnar nokkuð lunknar við að flétta upp í Nýja testamentinu, sem er nú nokkuð erfitt, því leita þarf að bókum innan þess, stórum stöfum og svo litlum stöfum. Alveg ótrúlega duglegar þessar stelpur og athyglin alveg í botni ! Viktoría foringi las síðan fyrir okkur sögu og við sungum að endingu fleiri lög og enduðum síðan á Ölver í faðmi fjalla, Ölverslaginu okkar.
Kl. 12 voru grillaðar pylsur í boði út fyrir stelpurnar og íspinni í eftirrétt. Að því loknu var leikið frjálst og akkúrat í þessum töluðu orðum er verið að blása í lúðurinn til að hefja leik í íþróttasalnum þar sem stelpurnar ætla…ÆTLA, að vinna foringjana í brennó 🙂
Kl. 14.00 er leynivinaleikjauppljóstrun og vona ég að það hafi skilið eitthvað eftir sig þessi leikur, en vissulega eru margar ungar í hópnum sem áttuðu sig ekki alveg á þessu, en foringjarnir hafa verið duglegir að aðstoða stelpurnar sem höfðu aldrei tekið þátt í slíkum leik við að föndra gjafir handa leynivininum. Alla veganna fannst mér leikurinn falla í kramið. Síðan er lokasamvera, þar verða verðlaun og viðurkenningar veittar og við teljum í glænýtt Ölverslag 2019, nýr texti við júrósmell og söngglöðu Krílaflokksstelpunum ættu ekki að þykja það lag leiðinlegt er ég nokkuð viss um.
Kl. 15. 00 kemur rútan og sækir okkur.
Takk fyrir „lánið“ á ykkar flottu stúlkum í flokki Krílaflokks Ölvers 2019. Framtíðin er björt, Guð veri með ykkur öllum !
Kær kveðja, Rósa Jóhannesdóttir, forstöðukona Krílaflokks.