Í dag mættu 45 virkilega hressar og kátar stelpur hingað til okkar í Ölver. Rútuferðin gekk vel og stelpurnar voru fljótar að koma sér fyrir og heldur betur tilbúnar að takast á við komandi ævintýri.

Hópurinn byrjaði á því að koma saman í matsalnum þar sem farið var yfir staðinn og það hvernig við ætlum, tæplega 60 stelpur, að búa saman í einu húsi í 6 daga 🙂 Eftir að allt starfsfólkið var búið að kynna sig og staðinn, allir búnir að koma sér fyrir í sínum herbergjum og búa um sig var komið að hádegismat.

Eftir hádegismat var komið að því að kynnast aðeins hver annarri og því fór allur hópurinn saman út í sólina í nokkra leiki, bæði nafnaleiki og aðra klassíska útileiki, keppnisskapið leyndi sér ekki í okkar konum! Þegar við vorum búnar að leika okkur aðeins úti í góða veðrinu fórum við inn í íþróttahús, fórum yfir reglurnar í brennó og tókum einn æfingaleik fyrir kaffi. Eftir kaffi var svo komið að fyrstu umferð í brennókeppni 10. flokks en búið var að skipta stelpunum upp í 6 lið, algjörlega óháð herbergjum og öðrum tengslum. Fyrsta umferð gekk þó nokkuð hratt og örugglega fyrir sig og aftur fengum við að sjá keppnisskapið og hressleikann sem stelpurnar búa yfir. Þetta eru jákvæðar og kröftugar stelpur sem við erum með hérna þessa vikuna og við starfsfólkið erum mjög spenntar að fá að kynnast þeim betur.

Eftir kvöldmat var blásið til kvöldvöku þar sem Skógarver, eitt herbergjana, sá um skemmtiatriði en þær buðu hópnum upp á eitt leikrit og einn leik. Það var mikið hlegið og mikið sungið á kvöldvökunni í kvöld en foringjarnir sýndu einnig tvö leikrit.

Eftir kvöldvöku gerðu stelpurnar sig klárar fyrir svefninn og fengu sér smá kvöldkaffi en það var þó ekki alveg allt búið ennþá, það átti eftir uppljóstra hvaða starfsmaður væri bænakona í hverju herbergi! Mikil spenna var í stelpunum og því voru þær fljótar að græja sig. Þegar allir voru klárir fékk hvert herbergi bréf með þremur staðreyndum um sína bænakonu en þær áttu að nota staðreyndirnar til að finna út úr því hvaða starfsmaður væri þeirra bænakona. Þetta var erfiðara heldur en þær héldu þar sem flestar staðreyndirnar áttu við um fleiri en einn starfsmann… en þó átti hvert bréf aðeins við um einn tiltekinn starfsmann. Eftir að öll herbergi voru búin að para sitt bréf við starfsmann fóru allir inn í sitt herbergi með sinni bænakonu. Það kom passlega fljótt ró í húsið og við vonum að stelpurnar nái að sofa vel í nótt.

Ölverskveðja
Alla Rún, forstöðukona

Hádegismatur: Skyr og brauðhlaðborð
Kaffi: Bananabrauð og smákökur
Kvöldmatur: Steiktur fiskur með öllu tilheyrandi
Kvöldkaffi: Epli og bananar