Sólríkur og fallegur dagur hjá okkur í Ölveri.

Stelpurnar vöknuðu kátar og hressar í morgun en þær voru vaktar með ljúfri en hressri tónlist um kl. 9:00 í morgun. Þær voru þó nokkuð fljótar að koma sér í gang fyrir daginn en morguninn var með hefðbundnu ölvers-sniði. Við byrjuðum daginn á morgunmat og fánahyllingu en eftir það fóru stelpurnar allar inn á sín herbergi að taka til og búa um en það er stór hluti af Hegðunarkeppninni að halda herberginu sínu hreinu. Þegar það var búið að búa um öll rúm og taka til var komið að morgunstund en þar sungum við aðeins saman og heyrðum stutta sögu. Eftir morgunstundina var komið að annarri umferð í brennókeppni flokksins. Það var mikill hraði og kraftur í leikjum dagsins og því afar skemmtilegt að fylgjast með stelpunum spila uppáhalds leikinn okkar hérna í Ölveri. 

Þar sem gula vinkona okkar, sólin, var svo góð að vera í heimsókn hjá okkur og hita upp svæðið okkar ákváðum við að fara í göngu eftir hádegismat. Ákveðið var að ganga niður að á þar sem stelpurnar fengu að vaða í ánni og leika sér í sólinni. Þegar hópurinn kom aftur upp í Ölver var kaffitíminn tilbúinn sem kom svo mjög vel þar sem okkar konur voru svangar eftir gönguna.

Í miðjum kaffitímanum heyrðist allt í einu há og taktföst tónlist og inn í matsalinn þrömmuðu fjórar óþekkjanlegar konur sem dönsuðu og löbbuðu í takt við tónlistina. Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar stelpurnar komust að því hvað þær væru að fara að gera, það var komið að Ölver‘s Next Top Model hönnunarkeppninni. Keppnin snýst um og reynir á samvinnu hópsins og sköpunargáfu en hver hópur fékk ruslapoka, band og skæri. Verkefni hópanna var að búa til klæðnað úr ruslapokunum og máttu þær aðeins nota það sem þær fengu afhent og það sem hægt er að finna úti í náttúrunni. Stelpurnar fengu rúmar 40 mínútur til að undirbúa sig og svo var haldin tískusýning í sólinni niðri í laut. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og var starf dómaranna því alls ekki auðvelt í þetta skiptið. Þegar tískusýningunni var lokið og búið var að taka myndir af öllum hópunum var boðið upp á sturtu og heita pottinn fram að kvöldmat ásamt því að starfsfólkið setti upp hoppukastala í lautinni. Stelpurnar voru því duglegar að vera úti í dag.

Á kvöldvökunni sáu tvö herbergi um skemmtiatriði en það voru Hlíðar- og Lindaver. Hvort herbergi um sig bauð upp á einn leik og eitt leikrit, það var því mikið um að vera og mikið hlegið.

Þegar stelpurnar voru allar búnar að gera sig til fyrir svefninn braust aftur út há og taktföst tónlist, ölversmeyjarnar okkar voru fljótar að átta sig á því að það var komið að því sem margar voru að bíða eftir… NÁTTFATAPARTÝ! Þar dönsuðu stelpurnar, kepptu í ásadansi og sáu til að mynda leikrit frá starfsfólkinu. Herlegheitin enduðu svo á því að stelpurnar fengu ís og heyrðu sögu. Eftir að vera komnar í ró inni í sal fylgdu þreyttar en þakklátar ölversmeyjar svo sinni bænakonu inn í herbergi og fóru að sofa.

Það er því viðburðarríkur sólardagur á enda hjá okkur hérna í Ölveri.

Sólarkveðja,
Alla Rún, forstöðukona

Morgunmatur: Hafragrautur, morgunkorn og súrmjólk
Hádegismatur: Ávaxtasúrmjólk og brauð
Kaffi: Skinkuhorn og jógúrtkaka
Kvöldmatur: Lasagne og hvítlauksbrauð
Kvöldkaffi: Appelsínur og banana

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157710147172367/