Furðuleikar og sykurpúðar!
Fjörið byrjaði kl. 9:00 en morguninn var með hefðbundnu sniði líkt og í gær: morgunmatur, fánahylling, tiltekt, morgunstund og svo þriðja umferð í brennókeppninni. Eftir hádegismat var blásið til FURÐULEIKA en þar var stelpunum skipt upp eftir brennóliðum og hvert lið einkennt með lituðu Ölvers-vesti. Liðin áttu svo að fara á milli stöðva og leysa hinar ýmsu þrautir ýmist sem hópur eða sem einstaklingar. Keppt var í mörgum furðulegum greinum, til að mynda: furðuveru, BROSI, dansað á blaði, matarkex-áti, hoppað á Einari könguló, stígvélasparki, ljóðagerð, morgunkorni í krukku, gríptu prikið og grettum svo fátt eitt sé nefnt.
Þegar allir voru búnir að fá smá hressingu og þrautunum var lokið var komið að nammi-spurningakeppni þar sem stelpurnar unnu 2-3 saman í því að safna nammi en hvert rétt svar gaf hópnum einn mola. Það vantaði ekki fróðleikinn í stelpurnar okkar og þær voru því enga stund að klára keppnina. Þegar allir hópar voru búnir að telja molana sína var opnað fyrir pottinn. Líkt og í gær voru stelpurnar duglegar að vera úti, sumar fóru í pottinn og/eða sturtu, einhverjar sátu úti að gera vinabönd og aðrar fóru á hoppudýnuna og léku sér úti í skógi.
Á kvöldvökunni voru það Hamra- og Fuglaver sem sáu um skemmtiatriði og voru hvort herbergi um sig með eitt leikrit og einn leik, enn og aftur slóu herbergin í gegn hjá stelpunum og það var mikið hlegið. Starfsfólkið tók svo eitt leikrit í lokin sem endaði þannig að stelpunum var öllum boðið út í smá útilegu stemningu þar sem hópurinn grillaði sykurpúða og hélt smá brekkusöng. Brekkusöngurinn endaði svo á rólegri stund, kvöldkaffi og smá hugleiðingu.
Viðburðaríkur útiverudagur á enda hjá okkur í Ölveri 🙂
Ölverskveðja,
Alla Rún, forstöðukona
Morgunmatur: Hafragrautur, morgunkorn og súrmjólk
Hádegismatur: Salatbar með öllu tilheyrandi
Kaffi: Kanilsnúðar og súkkulaðikaka
Kvöldmatur: Pétursfiskur, hrísgrjón og salat
Kvöldkaffi: Appelsínur og banana