Það ríkir mikil gleði í Ölveri hjá drengjunum sem mættir eru í Pjakkaflokk. Þeir taka hraustlega til matar síns en í morgunverð völdu margir að fá sér Hafragraut sem Hrafnhildur forstöðukona hafði eldað, meðan aðrir fengu sér súrmjólk, kornflögur eða Cheerios. Þá tók við morgunfræðslustund þar sem Rósa sagði sögu úr Biblíunni og kenndi nokkra skemmtilega söngva.
Svo var farið í brennó og frjálsan tíma fram að hádegi. Í hádeginu voru heitar samlokur og grjónagrautur í boði. Eftir mat voru Ölversleikarnir settir í gang þar sem keppt var í ýmsum furðuíþróttum áður en kaffitíminn tók við með nýbakaðri skúffuköku og brauði.
Eftir kaffitímann var heiti potturinn settur í gang og hoppukastalinn blásin upp og voru drengirnir duglegir að leika sér í frjálsa tímanum. Í kvöldmatinn var hakk og spagettí og meiri frjáls tími þar til kvöldvakan tók við en þar voru drengirnir sjálfir búnir að undirbúa leiki og höfðu hæfileikasýningu.
Sr. Þráinn prestur á Akranesi var með hugvekju og eftir kvöldsönginn grilluðum við sykurpúða. Drengirnir voru svo fljótir að sofna eftir viðburðarríkan dag.
Hér má sjá myndir flokknum: