Skemmtilegur og viðburðarríkur dagur að kveldi komin. Drengirnir fengu að sofa örlítið lengur í dag en fyrstu nóttina og borðuðu morgun mat kl. 9.15. Eftir mat var fáninn dreginn að húni undir fánasöng. Því næst var morgunstund þar sem við sungum og heyrðum dæmisögu Jesú um góða hirðinn. Því næst var farið í brennó áður en drengirnir fengu frjálsan tíma, margir völdu að að fara í leynifélagið!!

Leynifélagið fór út í skóg og gerði sér hús innan í litlum trjálundi, við fundum sprek og gras og bjuggum þannig til veggi. Þetta fannst strákunum mjög skemmtilegt. Í hádegismat fengum við grænmetisbuff og gerðu drengir því góð skil. Eftir matinn var boðið uppá frjálsan tíma þar sem margir fóru áfram í leynifélagið, þá var einnig farið í leiki og einhverjir æfðu leikrit. Í kaffinu var boðið uppá snúða og köku, en eftir kaffi var svo ýmislegt skemmtilegt í boði fótbolti, hoppukastali og fleira. Þá eru alltaf einhverjir sem vilja eiga næðisstund og grípa í bækur að glugga í, Syrpur frá Andabæ Disney eru mjög vinsælar.

Í kvöld fóru svo allir í sitt fínasta púss og borðuðu pizzur á veislukvöldi, íspinni var svo í eftirrétt. Kvöldvakan var hlaðin skemmtilegu efni sem foringarnir undirbjuggu 6 stk Ölversleikrit voru sýnd ásamt söngvum og hugleiðingu. Eftir kvöldvöku fengu allir að smakka á nýpoppuðu poppi úr poppvél! Drengirnir voru ekki lengi að sofna eftir viðburðarríkan dag.

Á morgun er síðasti dagurinn hjá okkur, en kl. 13:30 bjóðum við uppá lokastund áður en foreldrum er síðan boðið í veglegt kaffi. Heimferð er svo laust fyrir kl. 15:00.

Myndir frá degi 3 https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157710357921071