Í gær lögðu af stað 11 hressar og spenntar stelpur upp í Ölver. Þegar komið var upp í Ölver var byrjað á því að koma sér fyrir og kynnast starfsfólkinu. Boðið var upp á skyr og brauð að hætti Ölvers og borðuðu stelpurnar vel af matnum. Stelpurnar fóru svo í gönguferð um svæðið, heyrðu sögur og fóru í leiki í rigningunni. Eftir kaffitímann var svo boðið upp á að fara í heita pottinn sem vakti mikla lukku, ásamt því að föndra og undirbúa leikrit fyrir kvöldvökuna. Kvöldvakan var svo haldin með pomp og prakt þar sem sungin voru Ölverslög, stelpurnar sýndu leikrit og svo var hlustað á sögu frá starfsmanni. Eftir góðan dag sváfu stelpurnar vært!

Í dag vöknuðu stelpurnar kl. 8:30. Þær fengu dýrindis morgunverð og fóru á morgunstund þar sem þær heryði sögu um Sakkeus, sungu lög og lærðu fyrsta hlutann af Faðir vorinu. Stelpurnar fengu að gera kókoskúlur sem borðaðar voru svo í kaffitímanum Veðrið var aldeilis gott í dag og nutum við þess með því að fara í ævintýragöngu upp að steini þar sem stelpurnar heyrðu sögu um náttúruna í kringum Ölver. Þegar komið var til baka var kaffitíminn haldinn úti og eftir hann var boðið upp á að fara í heita pottinn, föndra fidget spinner og undirbúa hæfileikasýningu sem var svo haldin eftir kvöldmat. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel að sýna atriði og horfa á atriði hjá öðrum. Kvöldið var svo ekki af verri endanum þar sem hæfileikasýningin breyttist svo í náttfatapartý þar sem dansað var við lög og endað á því að horfa á mynd og borða popp og ávexti. Stelpurnar fóru svo sáttar og glaðar að sofa eftir viðburðarríkan og sólríkan dag.

Hægt er að sjá myndir á þessari slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714648099931

-Guðlaug María og Ólöf Birna
Forstöðukonur