Í dag mættu 46 fjörugar stelpur í Ölver. Það er búið að vera mikið fjör í húsinu í allan dag. Þegar þær mættu á staðinn fengu þær kynningu á staðnum og svo fengu þær tíma til að koma sér almennilega fyrir. Starfsfólkið náði að koma til móts við flestar ef ekki allar herbergisóskir hjá hópnum.

Eftir hádegismatinn var farið í gönguferð um svæðið og farið í stutta brennókennslu fyrir komandi brennókeppni vikunnar. Stelpurnar fengu svo í kjölfarið tækifæri á að kynnast hver annarri betur í alls konar nafnaleikjum og fjöri.

Eftir kaffi var farið í svakalega flotta nammi-spurningarkeppni sem reyndi bæði á samvinnu og almenna þekkingu stelpnanna. Það leyndi sér ekki að hópurinn er stútfullur af flottum og klárum stelpum og það má finna keppnisskap í hópnum líka.

Eftir kvöldmat var hefðbundin kvöldvaka sem endaði á svakalegri bænakonuleit. Stelpurnar fengu verkefni sem reyndu á samvinnu hvers herbergis fyrir sig, sem leiddu þær áfram í leitinni. Leitin tók örlítið lengri tíma en áætlað var en á endanum skiluðu sér allir í hús með bros á vör.

Yfir kvöldkaffinu fengu stelpurnar að heyra spennandi sögu og komst fljótt ró á hópinn. Þær voru fljótar að sofna þrátt fyrir að sumar væru örlítið stressaðar fyrir fyrstu nóttinni.

Hlökkum til að vakna ferskar í fyrramálið

Bestu kveðjur
Forstöðukona

 

Hádegismatur: Kakósúpa, kornfleks og smurt brauð
Kaffi: Súkkulaðikaka og smákökur
Kvöldmatur: Steiktur fiskur, kartöflubátar og grænmeti