Dagurinn byrjaði snemma hjá okkar konum í Ölveri þar sem þær voru flestar vaknaðar um kl. 8:30, ferskar og tilbúnar í daginn eftir góðan nætursvefn.

Morguninn var með hefðbundnu sniði. Byrjuðum á að fá okkur smá næringu, fórum svo út í fánahyllingu, tókum vel til í herbergjunum okkar (hegðunarkeppnin formlega hafin) og fórum svo á morgunstund. Í lok morgunstundarinnar voru brennóliðin kynnt og brennókeppni flokksins formlega sett. Hópurinn fór þá rakleiðis út í íþróttahús með keppnisskapið og hvatningarópin að vopni.

Það má segja að dagurinn hafi svolítið einkennst af hreyfingu og útiveru þar sem það var blásið til Ölversleika eftir hádegi. Þar kepptu herbergin í hinum ýmsu greinum, sumar þeirra voru óvenjulegri en aðrar, s.s. BuffBolluBjörgun, dansað á blaði og furðuvera svo fátt eitt sé nefnt. Til að byrja með var hópnum skipt á stöðvar en svo var farið í keppni á milli liða á fótboltavellinum þar sem greinarnar reyndu hvað mesta á samvinnu og hvatningu innan liða.

Eftir kvöldmat var blásið til kvöldvöku. Kvöldvakan virtist hefðbundin til að byrja með, tvö herbergi með atriði en óhætt er að segja að bæði herbergin hafi verið með stórleik og farið á kostum. Um miðja kvöldvöku hringdi allt í einu Ölvers-tölvan. Á línunni voru tveir starfsmenn sem skyldu hreinlega ekki hvað restin af hópnum væri eiginlega drolla, en það sást greinilega varðeldur í bakgrunni og þær virtust vera að gæða sér á sykurpúðum. Stelpurnar voru ekki lengi að henda sér í útifötin og hlaupa út. Flokkurinn átti svo huggulega stund saman úti í laut þar sem við grilluðum sykurpúða og klemmdum með kexi, sungum íslensk lög og enduðum á að heyra sögu af stofnanda Ölvers.

Stelpurnar fóru svo upp í hús að hátta og græja sig fyrir svefnin og þegar það var komin ró í húsið settist starfsfólkið á svefnganginn og söng fyrir stelpurnar.

Við vonum að allir sofi vel í nótt og vakni kátir og hressir í fyrramálið.

Bestu kveðjur
Forstöðukona

82056643_587232281790714_3648601502389764210_n

 

 

 

Morgunmatur: Morgunverðarhlaðborð
Hádegismatur: Grænmetisbuff, couscous, salat og heimagerð grænmetissósa.
Kaffi: Pizzasnúðar og jógúrtkaka
Kvöldmatur: Skyr og brauð
Kvöldkaffi: Bananar og epli