Það var heldur óvenjulegur morgun hjá okkur í Ölveri í dag, stelpurnar voru vaktar með fjörugri tónlist kl. 9:00 og hófst dagurinn á náttfatapartýi. Stelpurnar voru misfljótar í gang en starfsfólkið náði að fá hópinn til að dansa þrjá dansa svona í morgunsárið. Eftir skrautlega byrjun á deginum var morguninn með hefðbundnum hætti, tiltekt, morgunstund og brennó. Brennókeppnin fer vel af stað og allar stelpurnar taka virkan og kröftugan þátt í henni.

Eftir hádegismat virtist eitthvað skrítið vera í gangi í húsinu, kunnuleg tónlist fór að hljóma um húsið og starfsfólkið fór að hverfa eitt af öðru en litríkar persónur að birtast hér og þar um húsið í staðinn. Stelpurnar voru ekki lengi að átta sig á því að núna væri eitthvað virkilega ævintýralegt að fara af stað og voru fljótar að koma sér fyrir inni í matsal og bíða fyrirmæla. Hópurinn áttaði sig fljótlega á því að persónurnar sem voru mættar áttu það allar sameiginlegt að tengjast Harry Potter bókunum en gistiskálanum hafði allt í einu verið breytt í Hogwarts-skóla. Stelpurnar voru svo leiddar í smærri hópum inn í hvert herbergið á fætur öðru þar sem þær hittu fyrir hina ýmsu karaktera úr ævintýraheimi Potters og leystu þrautir með hverjum og einum þeirra. Hópurinn endaði svo allur uppi í kvöldvökusal og horfði á hluta úr fyrstu myndinni.

Eftir kaffitímann var svo komið að því sem margar vanar ölversstelpur í hópnum höfðu beðið eftir, Ölver´s next top model. Hönnunarkeppni sem reynir á samvinnu og sköpun stelpnanna en hvert lið hefur 30 mín. til að hanna fatnað og heildarútlit á eina stelpu í liðinu. Liðin mega aðeins nota ruslapoka, skæri og búta sem starfsfólkið úthlutar hverjum hópi fyrir sig ásamt því sem þær finna úti í náttúrunni. Að þessum 30 mín. loknum var svo haldin tískusýning á palli í matsalnum. Þessi keppni sló rækilega í gegn og keppnisskapið og sköpunargáfurnar leyndu sér svo sannarlega ekki. Hönnun hópana var afar ólík og samvinna hópanna til fyrirmyndar.

Eftir kvöldmat var komið að kvöldvöku en hún var með hefðbundnu sniði þetta kvöldið. Eitt herbergi sá um skemmtiatriði sem tókust vel og uppskar herbergið mikil fagnaðarlæti frá hinum í hópnum. Það var mikið sungið og hlegið í kvöld og stelpurnar virtust virkilega sáttar eftir daginn.

Þegar stelpurnar voru búnar að koma sér fyrir inni í herbergjunum sínum og allar komnar í náttfötin kom starfsfólkið hópnum enn og aftur á óvart og blés í náttfatapartý – að þessu sinni gerðu þær þetta almennilega og með öllu tilheyrandi.

Stelpurnar voru þreyttar eftir daginn og því fljótar að sofna þegar þær lögðust á koddan.

Við hlökkum til að skapa fleiri minningar með þeim á morgun.

Bestu kveðjur
Forstöðukona

Morgunmatur: Hlaðborð
Hádegismatur: Fiskibollur, hrísgrjón og karrýsósa
Kaffi: Ölvers-brauðbollur og kornflekskökur
Kvöldmatur: Ávaxtasúrmjólk og pizzabrauð
Kvöldkaffi: Bananar, appelsínur og epli