Rólegur og huggulegur dagur hjá okkur í Ölveri í dag.

Morguninn var frekar hefðbundinn líkt og áður en stelpurnar voru örlítið þreyttar eftir ævintýralegan og viðburðarríkan dag í gær.

Eftir hádegismat var farið í smá ævintýragöngu upp að Dísusteini. Stelpurnar voru öflugar í göngunni og flestar fóru alla leið upp að steininum en hann liggur í miðju fjallinu hér rétt hjá sumarbúðunum. Hópurinn eyddi svo dágóðri stund í lautinni fyrir neðan steininn, heyrði sögu og hafði það notalegt.

Þar sem það rættist óvænt alveg svakalega úr veðrinu var ákveðið að opna fyrir pottinn eftir kaffitímann og bjóða upp á pott og stöðvar úti í góða veðrinu. Stelpurnar fóru í skotbolta, gerðu vinabönd, fléttuðu á hver annarri hárið og flestar fóru í pottinn eða í sturtu fyrir kvöldmat.

Kvöldvakan var með hefðbundnu sniði þar sem stelpurnar sáu um skemmtiatriði. Stelpurnar eru nánast búnar að læra alla söngtexta utan að og því farnar að geta sungið hærra og betur með starfsfólkinu. Þær sungu svo hátt og vel í gærkvöldi að það mættu óvæntir gestir úr sveitinni hér í kring á svalirnar á kvöldvökusalnum. Þar mættu þær systur Jakobína Nína og Jóhanna Hanna (starfmenn í dulargervi) en þær voru æstar í að vera með á kvöldvökunni og heimtuðu að horfa á mynd! Það var smá vesen á þeim systrum og töluverð læti í þeim. Stelpunum fannst þær alveg svakalega fyndnar og tóku vel undir þessa hugmynd um að horfa saman á mynd. Hópurinn horfði í framhaldinu saman á myndina Parent trap og fékk sér popp og ávexti.

Stelpurnar voru ótrúlega duglegar að fara að sofa eftir daginn og sofnuðu nánast allar um leið og þær lögðust á koddann.

Bestu kveðjur
Forstöðukona

 

Morgunmatur: Hlaðborð
Hádegismatur: Grjónagrautur
Kaffitími: Karmellulengjur og möndlukaka
Kvöldmatur: Hakk, pasta og salat