Stelpurnar fengu að sofa örlítð lengur í dag og ákvað ráðskonan að bjóða upp á “standandi morgunverð”. Stelpurnar gátu því farið inn í matsal og fengið sér að borða á sínum tíma. Eftir morgunmat og tiltekt hófst svo hefðbundin morgundagskrá, morgunstund og brennó.

Eftir hádegismat var ákveðið að fara í göngutúr niður að læk þar sem stelpurnar gátu sólað sig og leikið í læknum. Það kom ekki annað til greina en að nýta þennan fallega og sólríka dag sem mest í útiveru og sumarsprell.

Þegar stelpurnar komu aftur upp í Ölver eftir gönguna var búið að útbúa og stilla upp kaffitíma úti fyrir þær ásamt því að það var kominn hoppukastali í lautina. Þegar allir voru búnir að næra sig og voru tilbúnir í næsta ævintýri var komið að hæfileikakeppni en stelpurnar fengu þá klukkutíma til að skrá sig og æfa atriði fyrir keppnina.

Hæfileikakeppnin var haldin niðri í laut í góða veðrinu. Dagskráin var þétt og fjölbreytt þar sem það voru 16 atriði skráð til leiks, jafn ólík og þau voru mörg. Þessi flokkur er fjölhæfur og opin og því krefjandi verkefni sem bíður dómaranna.

Eftir kvöldmat var kallað í kvöldvöku en stelpurnar náðu bara að syngja eitt lag þegar kvöldvakan var trufluð. Inn á kvöldvökuna óð lafmóður starfsmaður í mjög áhugaverðum búning. Það var komið að NÆTURLEIK FLOKKSINS! Stelpurnar voru ótrúlega spenntar og fljótar að bregðast við. Þær fengu fyrsta verkefnið uppi í sal en um leið og þær náðu að leysa það fengu þær næsta verkefni. Leikurinn reynir á samvinnu og útsjónasemi hópsins. Til að „vinna“ leikinn þurfa þær að hjálpast að og vinna saman. Það tók þær smá tíma að átta sig á því hve mikilvæg samvinna getur verið og hve mikilvægt það er að hlusta vel á fyrirmæli. Um leið og þær fóru að vinna saman voru þær enga stund að klára leikinn.

Þegar hópurinn skilaði sér aftur inn í hús ilmaði húsið af vöfflum og huggulegheitum. Það var búið að breyta matsalnum í fyrsta flokks kaffihús sem bauð upp á vöfflur með öllu tilheyrandi. Óhefðbundið kvöldkaffi kom sér mjög vel og var kærkomið eftir öll hlaupin og hamaganginn í leiknum.

Stelpurnar hlustuðu á sögu yfir kvöldkaffinu og fóru svo stilltar og prúðar að hátta og bursta.

Það komst fljótlega ró í húsið og þær virðast allar mjög spenntar fyrir komandi ævintýrum á morgun… það er nefnilega 17. JÚNÍ!!!! 🙂

Bestu kveðjur
Forstöðukona

Hádegismatur: Samlokuhlaðborð
Kaffitími: Hjónabandsæla og kanilsnúðar
Kvöldmatur: Kjúklingaleggir og kartöflur
Kvöldkaffi: Vöfflur með öllu tilheyrandi og mjólk