Dagurinn í dag byrjaði klukkan 08:30 en þá vöktu foringjarnir stelpurnar. Klukkan 09:00 var morgunmatur, cheerios, cornflakes og hafragrautur. Þær borðuðu vel og fóru svo út í fánahyllingu, en þá syngjum við fánasöng og drögum upp fallega fánann okkar. Svo fengu stelpurnar smá tíma í að taka til í herbergjunum sínum. Þær fóru svo á biblíulestur uppí kvöldvökusal þar sem þær fengu að heyra sögu og syngja lög. Næst var komið að brennó en hópnum var skipt í fjögur brennólið. Öll liðin kepptu einn leik og fóru svo í hádegismat. Í matinn voru fiskibollur með karrýsósu, hrísgrjónum og grænmeti. Frjáls tími og svo tískusýning Ölvers! Hvert herbergi fékk ruslapoka, bönd og skæri og áttu að hanna eitthvað flott úr þessum efnum ásamt efnum úr náttúrunni eins og blómum. Það var því ein stelpa í hverju herbergi “módel” og svo var tískusýning með öllum módelunum. Í kaffi voru brauðbollur og súkkulaðibitakökur, namm! Eftir kaffitímann var allskonar í boði. Öll herbergin fengu að fara í pottinn, það var föndur inni í matsal, vinabönd í kvöldvökusalnum og hoppudýnan úti. Allar fundu eitthvað við sitt hæfi og skemmtu sér vel. Í kvöldmat var kakósúpa og brauð með allskonar góðu áleggi. Eftir matinn var fjörug kvöldvaka þar sem tvö herbergi fengu að sýna leikrit sem þau höfðu æft fyrr um daginn. Það var mikið stuð á kvöldvökunni sem sýnir hversu skemmtilegur og kröftugur hópur þetta er. Þær fengu ávexti í kvöldkaffi og svo fóru bænakonurnar til þeirra, en þær eru með stelpunum núna í þessum skrifuðu orðum. Búist er við að ró verði komin á og flestar stelpur sofnaðar um 22:30. Á morgun er síðan æðisleg veðurspá og við stefnum á að vera mikið úti (með sólarvörn að sjálfsögðu!) Takk fyrir daginn.

Kær kveðja, 

Jóhanna Elísa Skúladóttir