Þá er þriðji dagurinn runninn upp! Stelpurnar vöknuðu klukkan 08:30 og fengu sér morgunmat. Það sama var í morgunmat og í gær. Morguninn var hefbundinn; fánahylling, taka til í herbergjum, biblíulestur og brennó. Í hádegismatinn var yndislega gott lasagna sem Heiðrún ráðskona gerði og stelpurnar borðuðu mikið. Við vissum í hvað stefndi með veðrið og því ákváðum við að fara með stelpurnar í gönguferð að lítilli á rétt fyrir utan Ölverssvæðið. Þar fengu stelpurnar að busla í ánni og njóta náttúrunnar í yndislega veðrinu. Já, þvílíkt dásemdarveður sem var hér í dag! Þegar heim var komið í Ölver fengu þær að borða kaffið úti. Í kaffitímanum voru kanillengjur og stórkostlegir snúðar með bleikum glassúr, alveg eins og úr bakaríi! Hún Heiðrún er alveg frábær kokkur. Að loknum kaffitíma tilkynntum við hvað yrði gert næst, sem var Tie Dye, eða fatalitun. Allar stelpurnar fengu hvítan bol sem þær snúðu upp í spíral. Við blönduðum fatalitum í flöskur sem stelpurnar notuðu til að lita bolina í allskyns litum. Þær fengu sex liti að velja úr. Þær þurftu að fara í hanska og að passa sig vel til að lita ekki fötin sem þær voru í. Bolina settum við svo í poka og þurfa þeir að bíða yfir heila nótt svo liturinn festist í. Á morgun munum við svo sjá útkomuna og stelpurnar eru vægast sagt spenntar! Þetta gekk allt vel og að lokinni bolalitun fengu þær að fara í pottinn, föndra og hoppa á hoppudýnunni. Í kvöldmatinn var ávaxtasúrmjólk, sem er nokkursskonar Ölversmatur. Þá er búið að blanda súrmjólk með jarðarberjagraut og skera ávexti ofan í. Til að bragðnæta enn meir er settur pínuponsu súkkulaðispænir. Með þessu fengu þær líka brauð og var kæfubrauðið mjög vinsælt. Í þessum skrifuðu orðum er kvöldvaka í gangi þar sem stelpurnar syngja og tvö herbergi fá að sýna leikrit. Í kvöld er síðan smá leyndó, en það verður óvænt náttfatapartý eftir kvöldvökuna. Það verður gaman, dansað, sungið, horft á leikrit, borðaður ís og hlustað á sögu. Þær munu því fara aðeins seinna að sofa í kvöld, en búast má við ró um klukkan 23:00.
Þessi dagur er búinn að vera dýrðlegur! Yndislegt veður, kátar stelpur og mikil gleði. Þetta er ótrúlega góður hópur sem tekur virkan þátt í allri dagskrá og finnst gaman að dunda sér í frjálsum tíma.
Ath. Hér er hægt að sjá myndir úr flokknum: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714789200651
Kær kveðja,
Jóhanna Elísa Skúladóttir