ATH. Bolirnir sem stelpurnar taka með heim þarf að þvo alveg sér í fyrsta skipti sem þeir eru þvegnir, þeir gætu litað annan þvott! Eftir fyrsta skipti er í lagi að þvo með öðrum þvotti.

Í dag var síðasti heili dagurinn okkar í Ölveri. Við vöknuðum klukkan 09:00 og borðuðum morgunmat. Eftir biblíulesturinn var ekki brennó heldur listhópar. Stelpurnar fengu að velja í hvaða hópi þær væru og voru hóparnir eftirfarandi: Danshópur, leiklistarhópur, stuttmyndagerðarhópur, bænaföndurhópur og kapelluskreytingarhópur. Allir hóparnir sýna svo afraksturinn í fyrramálið. Í hádegismatinn var grjónagrautur og eftir matinn máluðu stelpurnar leirinn sem þær höfðu mótað í gær. Í kaffitímanum voru brauðbollur og kaka, og tvö afmælisbörn í húsinu! Ein stelpa í flokknum átti afmæli í dag og við sungum fyrir hana og gerðum ellefufalt húrra fyrir henni. Hún fékk líka rosa fína köku og kórónu í tilefni dagsins. Einn eldhússtarfsmaður átti líka afmæli og við gerðum 38falt húrra fyrir henni líka. Eftir kaffið fengu stelpurnar fallegu bolina sína sem voru nú þornaðir og við tókum hópmynd fyrir utan húsið. Sjá mynd með frétt. Alveg ótrúlega skemmtilegir og flottir bolir hjá stelpunum! Eftir kaffi var undirbúningur fyrir veislukvöldið, en allar stelpur fóru í pottinn eða í sturtu og fóru svo í sparifötin. Það var líka svokallaður “kósýgangur”, en herbergin gátu boðið upp á eitthvað skemmtilegt eins og hárgreiðslu, nudd og slökun. Á veislukvöldi er salurinn skreyttur og setið er öðruvísi til borðs, eins og á veitingahúsi. Foringjarnir ganga síðan með matinn á milli stelpnanna en í matinn voru hamborgarar og rice crispies í eftirrétt. Eftir matinn var komið að veislukvöldvökunni og mikið var hún skemmtilegt. Stelpurnar sungu lög og sáu fullt af foringjaleikritum. Það var sko hlegið mikið í kvöld og haft gaman. Þær fengu ávexti og kex í kvöldkaffi áður en bænakonurnar komu inn til þeirra fyrir svefninn.

Ég ætla að skrifa hvað við gerum á morgun, svo þetta er síðasta fréttin sem kemur á síðuna í þessum flokki. Í fyrramálið verður ekki hefbundinn biblíulestur, heldur kapellustund. Hóparnir munu sýna afrakstur sinn á þessari stund. Danshópurinn æfði skemmtilegan dans, bænaföndurhópurinn föndraði plaköt og skrifaðir niður bænir, stuttmyndagerðarhópurinn gerði stuttmynd úr sögu úr biblíunni, leiklistarhópurinn mun leika leikrit úr sögu úr biblíunni og kapelluskreytingarhópurinn fær heiðurinn af því að kapellan verði notuð í fyrsta skipti í Ölveri. Um er að ræða pínulítið tréhús, svolítið eins og altari með krossi og kertum. Síðan verður foringjabrennó þar sem vinningsliðið í brennókeppninni keppir við foringjana og svo keppa allar stelpurnar við foringjana. Í hádeginu ætlum við að borða pulsur og svo verður lokastund þar sem við kveðjum Ölver áður en við stígum upp í rútuna. Rútan leggur af stað klukkan 15:00 og verður komin um 16:00 á Holtaveg 28 í Reykjavík. 

 

Fyrir hönd alls starfsfólks þakka ég stelpunum kærlega fyrir þennan flokk, og ykkur fyrir að senda þær til okkar og treysta okkur fyrir þeim. Þær eru búnar að standa sig ótrúlega vel og þeirra verður sárt saknað héðan úr Ölveri.

 

Kær kveðja, 

Jóhanna Elísa Skúladóttir