Hingað komu í gær frábær hópur stúlkna, spenntar og tilbúnar í skemmtilega daga hér í Ölveri. Strax eftir komuna buðum við starfsfólkið þær velkomnar og farið var yfir mikilvæg atriði sem þarf að muna og fara eftir í Ölveri. Ákváðum við að þessa daga ætlum við að hafa orðin “vinsemd og virðing” með okkur þessa viku og passa vel upp á hvor aðra, Ölver og umhverfið.
Raðað var niður í herbergin og gekk það hratt og vel fyrir sig. Stúlkurnar komu sér fyrir og gengu frá dótinu sínu inn á herbergin og síðan var blásið í hádegismat. Eftir að hafa gætt sér á skyri og brauði var farið í göngutúr um svæðið til að kynnast því betur. Gangan endaði í lautinni, þar sem farið var í marga skemmtilega leiki.
Í kaffitímanum var boðið upp á nýbakaðar brauðbollur og bananaköku. Eftir kaffi var komið að bænakonuleitinni sem allar stúlkurnar voru mjög spenntar fyrir. Hvert herbergi fær bænakonu sem kemur til þeirra á kvöldin, segir sögur eða les og biður kvöldbænirnar með þeim fyrir svefninn. Þegar öll herbergi höfðu fundið sína bænakonu var frjálst tími í smá stund fram að kvöldmat. Einhver hópur fór út, sumar perluðu, aðrar gerðu vinabönd og enn aðrar lituðu.
Að loknum kvöldmat, sem voru kjötbollur og kartöflur, var kvöldvaka þar sem Fjallaver og Fuglaver sáum um leikrit og leiki. Var mikið hlegið og sungið. Brynja Vigdís forstöðukona talaði við þær um vináttu og virðingu. Stúlkurnar fengu ávexti í kvöldhressingu áður en farið var inn á herbergi þar sem bænakonan beið eftir þeim og var hjá sínu herbergi þar til allar stúlkunar voru sofnaðar.
Mikið hlökkum við starfsfólkið til að kynnast þessum flotta hóp betur og verja með þeim næstu dögum.
Bestu kveðjur úr Ölver
Brynja Vigdís , forstöðukona