Það voru sprækar stúlkur sem voru vaktar (sumar reyndar vaknaðar) kl.08:30 í morgun.  Í morgunmat var á boðstólnum hafragrautur, ceerios, kornflex og súrmjól eins og alla morgna.

Þegar allar höfðu borðað nóg var fánahylling og svo fengu þær tíma til að taka til og gera fínt í herbergjunum sínum.  Í Biblíulestri dagsins fengu þær að heyra um sögu Ölvers og Kristrúnu sem stofnaði sumarbúðirnar.

Brennókeppnin byrjaði í dag og eru 5 lið sem stúlkum flokksins var skipt í – þau heita; Moana, Aladin, Simbi, Elsa og Poppy.

Í hádegismat var hin vinsæla ávaxtasúrmjólk Ölvers og brauð með.  Að hádegismat loknum var Ölvers Top model.  Hvert herbergi fékk plastpoka, skæri og bönd, og áttu að nota hugmyndaflugið til að búa til kjól eða annan fatnað, auk þess að gera fallegar hárgreiðslur í módelið.  Síðan fengu hin herbergin að sjá afrakstur erfiðisins og var ótrúlega gaman að sjá hvaða þær hafa mikið hugmyndaflug og góð úrræði til að nýta það litla efni sem þær fengu.

Jógúrtkaka og brauðbollur voru á boðstólnum í kaffitímanum og rann það ljúflega niður. Þegar blásið var í lúðurinn (en það þýðir að þær eiga að safnast allar saman á þeim stað sem foringjar hafa áður látið þær vita) fengu stúlkurnar að vita að nú fengju öll herbergi að fara í pottinn, eitt og eitt í einu.  Á meðan að beðið var í spenningi eftir að komast í pottinn þá voru 2 herbergi sem undirbjuggu kvöldvöku og aðrar fundu sér allt mögulegt til dundurs.  Var mikið hlegið og burslað í pottinum og voru það sællegar stúlkur sem settust til borðs í kvöldmat.  Þær tóku hraustlega til matar síns þegar bornar voru á boð kjúklingaleggir og kartöflubátar.  Borðuðu þær vel og hlupu svo út í góða veðrið í smá stund áður en kvöldvakan byrjaði.

Voru það Skógarver og Hamraver sem sáu um leikrit og leiki kvöldsins, auk þess sem mikið var sungið og hlustað á hugleiðingu sem fjallaði um að við færu öll dýrmæt í augum Guðs.

Þegar allar stúlkurnar voru búnar að hátta sig og komnar í rúmið barst tónlist ofan úr kvöldvökusal og nú bara að byrja náttfatapartý.  Mikið var dansað, hlegið og sprellað.  Endaði partýið á íspinna :o)   Eftir ísinn var aftur farið niður á bað og burstað, og nú var farið í háttinn.  Voru það þreyttar og sælar stúlku sem lögðust á kodda og voru ekki lengi að sofna.

 

 

Á degi 3 var vakið kl.09 og morgunmatur á hefðbundnum tíma kl.09:30.  Hefðbundin morgundagskrá var með fánahyllingu, biblíulestri og brennó.  Í hádegismat var grænmetisbuff og couscous sem rann ljúflega niður.

Eftir hádegismatinn var farið í gönguferð niður að læk, þar sem burslað var í góða veðrinu.  Kaffið var borðað úti og fengu stúlkurnar gómsæta kanilsnúða og skúffuköku með smjörkremi.

Á meðan að þær gæddu sér á bakkelsinu var hoppudýnan blásin upp og voru stúlkurnar ekki lengi að hlaupa niður í laut til að hoppa.

Fyrir kvöldmat var svo blásið til hæfileikasýningar þar sem ótrúlega mörg flott atriði voru sýnd, það var söngur, dans, leikrit, fimleikar og fleiri hæfileikar sýndir sem búa í þessum flottu stúlkum sem eru í flokknum.

Í kvöldmatin var dýrindis pastaréttur og hvítlauksbrauð.  Skemmtiatriði kvöldvökunnar sáu Hlíðarver og Lindarver um.  Þegar kvöldvakan var alveg að klárast fengu stelpurnar að vita að nú væri komið að bíókvöldi.  Drifu þær sig því í að hátta og sækja sængur/svefnpoka sem farið var með upp í kvöldvöku sal og þar komu þær sem vel fyrir.   Nú þegar þessi frétt er skrifuð eru þær að horfða á myndina Mulan 2 og gæða sér á poppi og ávöxtum.

Lúsmýið er komið í heimsókn og hefur aðeins verið að narta í stelpurnar en ekkert alvarlegt.