Dagarnir fljúga frá okkur hér í Ölveri. Okkur finnst við vera nýkomnar en flokkurinn er samt alveg að verða búinn.

Eftir hádegismatinn í gær breyttist húsið okkar í Hogwarts skóla og ýmsir karakterar úr Harry Potter skutu upp kollinum. Stelpurnar þræddu húsið og leystu ýmis verkefni sem persónurnar lögðu fyrir þær. Þegar leikurinn kláraðist var kominn tími fyrir smá hressingu (við erum alltaf að borða hér í Ölveri 🙂 )

Eftir kaffitímann undirbjuggu stelpurnar sig fyrir hæfileikakeppni sem fór svo fram í gær. Stelpurnar stigu á stokk hver á fætur annarri og sýndu okkur hæfileika sína. Stelpurnar eru allar stútfullar af hæfileikum og fengum við meðal annars að hlusta á frumsamið lag, horfa á dansa, sjá teikningu af Ölveri og heyra ótrúlega spennandi sögu sem ein úr hópnum samdi. Dómnefndin á mjög erfitt verk fyrir höndum.

Kvöldvakan var á sínum stað en nú voru það stelpurnar í Skógarveri og Fuglaveri sem skemmtu. Eftir mikinn söng og hlátur breyttist kvöldvökusalurinn í bíósal og stelpurnar hrúguðu sér á gólfið með sængur og kodda og við horfðum saman á nýju Eurovision myndina. Stelpurnar fóru því aðeins seinna að sofa í gærkvöldi. Þar af leiðandi sváfum við aðeins lengur í morgun og eftir hefðbundin morgunverk var biblíulestur þar sem við ræddum saman um það sem Jesú sagði að væri mikilvægast af öllu, tvöfalda kærleiksboðorðið; að elska Guð af öllu hjarta og náunga okkar eins og sjálfar okkur. Síðustu brennóleikirnir fóru fram áðan og núna eru þær allar að borða hádegismat.

Í dag er veisludagur og því mikil og skemmtileg dagskrá framundan. Hér má sjá myndir úr flokknum.

 

Hádegismatur: Kjúklingalæri og kartöflur

Kaffitími: Pizza-snúðar, Rice Crispies kökur og jógúrtkaka

Kvöldmatur: Pastasalat með grænmeti

Kvöldkaffi: Epli, bananar, popp og brjóstsykur (sem stelpurnar bjuggu til sjálfar)

M0rgunmatur: Hafragrautur, Cheerios, Kornflex og súrmjólk

 

Stuðkveðjur úr Ölveri,

Hjördís Rós – forstöðukona