Það voru 40 dásamlegar stelpur sem mættu upp í Ölver í dag, tilbúnar í viðburðaríka og ævintýralega viku. Veðrið var einstaklega gott og sólin yljaði okkur í allan dag. Við byrjuðum á því að safnast saman inní matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig og farið var yfir helstu atriði. Þá var stelpunum skipt niður í herbergi. Þær sóttu síðan farangurinn sinn og komu sér fyrir. Þá var blásið í hádegismat, vanilluskyr og pizzabrauð sem rann ljúft niður. Eftir matinn fóru þær í gönguferð um svæðið þar sem þær kynntust svæðinu betur og því sem það hefur uppá að bjóða og fóru í hópeflisleiki. Þá var haldið inn í kaffi þar sem Ölversbolllur með osti og smjöri og smákökur biðu þeirra.

Eftir kaffi var farið í brennó en það er mikil og gömul Ölvershefð að spila brennó. Allir tóku þátt en síðan fá stúlkurnar að velja hvort þær vilji taka þátt í keppninni sjálfri sem fram fer næstu daga. Í Fókusflokki leggjum við litla áherslu á samkeppni, nóg er um hana annars staðar í lífinu. Það eina sem við ætlum að keppast að í vikunni er að vera bestur í að vera maður sjálfur 😉 Eftir brennóleikinn fengu stelpurnar óvænta upphringingu og fengu þær fréttir að foringjarnir væru „týndir“ . Hófst þá hin sívinsæla „bænakonuleit“ en þær fengu nokkrar vísbendingar og þurftu síðan að leita úti að sinni bænakonu sem verður þeirra herbergisforingi alla vikuna. Þetta þótti þeim mjög spennandi og ekki spilltu búningarnir sem starfsfólkið höfðu farið í fyrir.

Þá var haldið í kvöldmat en í matinn var Yo Yo fiskur ásamt hrísgrjónum og salati. Eftir matinn var kvöldvaka þar sem farið var í leiki, mikið sungið og foringjarnir sýndu leikrit sem vakti mikla lukku og mikið var hlegið. Einnig fengu þær að heyra um kjarnakonuna Kristrúnu Ólafsdóttur sem stofnaði sumarbúðirnar í Ölveri.

Þá voru ávextir í kvöldkaffinu og fóru stelpurnar síðan að búa sig í háttinn. Nú er óðum að færast ró yfir húsið og vonandi eiga allir eftir að sofa vel eftir góðan dag.

Kær kveðja úr Ölveri

Erla Björg Káradóttir forstöðukona.