Í dag voru stelpurnar vaktar kl.9 og hófst dagurinn á morgunverði að vanda. Þá var fáninn hylltur og síðan tók við hin daglega tiltekt.

Á morgunstundinni fengu stelpurnar að heyra söguna um Sakkesus sem fékk óvænt að kynnast Jesú og breyttist til betri manns frá þeim degi. Við spjölluðum saman um að setja okkur sífellt það markmið að gera aðeins betur í dag heldur en í gær og hvernig við getum alltaf vaxið og þroskast sem betri manneskjur með því að velja hið góða og fagra í lífinu. Eftir morgunstundina var farið niður í sal og þær skrifuðu og teiknuðu í dagbókina sína um að nota hæfileika og krafta sína til góðs og skrifuðu nokkur gildi sem gott er að hafa að leiðarljósi í lífinu.

Í hádegismatinn var sannkallað grænmetiðspartý, grænmetisbuff með cous cous, sósu og salati. Mjög ljúffengt.

Eftir matinn var haldið áfram í „sjálfsvinnunni“. Stelpurnar völdu sér hóp til að fara en í boði var  slökun og leidd hugleiðsla, að mála frá hjartanu, danshópur og leikir og létt gaman. Gekk þetta ótrúega vel enda frábær hópur hér hjá okkur.

Í kaffitímanum fengu þær Yo Yo kanilsnúða og köku með smjörkremi. Eftir kaffitímann var þeim skipt upp í tvo hópa, annar hópurinn fór að brennó út í íþróttahúsi en hinn málaði á steinana sína og völdu orð/lífsgildi sem talaði sérstaklega til þeirra og skrifuðu á hann. Gaman var að fylgjast með stelpunum sem voru mjög skapandi og flottar í þessari vinnu.

Þá var farið í heita pottinn og eitt herbergi æfði leikrit fyrir kvöldið.  Í kvöldmat var síðan grjónagrautur og brauð með áleggi.

Kvöldvakan var á sínum stað og þar var mikið fjör og gaman eins og alltaf. Loks þegar stelpurnar héldu að þær ættu að fara að sofa voru þær rifnar upp í náttfatapartý  Þar var mikið dansað, þær fengu að sjá leikrit og fengu svo allar frostpinna.

Ró var komið í húsið um miðnætti.

 

Kærar kveðjur

Erla Björg Káradóttir

forstöðukona