Það er aldeilis búið að vera frábært hér í fókusflokki hjá okkur, gleðin svo sannarlega við völd. Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt var haldið á morgunstund eða biblíulestur. Þar fengu stelpurnar að heyra söguna um Bartimesus blinda sem Jesú læknaði en sú saga kennir okkur að gefast aldrei upp, leyfa rödd okkar að heyrast og láta aldrei neinn þagga niður í okkur eða kæfa niður draumana okkar. Stelpurnar eru svo frábærar á þessum stundum og hlusta svo vel og koma með svo falleg dæmi þegar við spjöllum um lærdóm dagsins. Bara dásamlegt að vera með þeim.

Eftir morgunstundina var hreyfing og leikjafjör í leikskálanum okkar.  Í hádegismatinn var hakk og spaghetti og borðuðu stelpurnar mjög vel.

Eftir hádegi var farið í „Top model“ verkefni en þar reyndi á sköpun og samvinnu. Í kaffinu var boðið upp á ljúffeng skinkuhorn og rice crispies kökur.

Eftir kaffi var boðið upp á brjóstsykursgerð við mikinn fögnuð og föndurstund. Þá fóru flestir í pottinn eða sturtu og tvö herbergi undirbjuggu leikrit fyrir kvöldið.

Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk og brauð með áleggi.

Það var mikið fjör á kvöldvökunni eins og alltaf og síðan var boðið uppá „bíókvöld“ í kvöldvökusalnum þar sem stelpunar fengu að gæða sér á heimatilbúnu brjóstsykrunum.

Bænakonurnar fóru svo inná herbergin þegar allar voru tilbúnar í háttinn og ró er að komast á.

Á morgun er síðasti heili dagurinn okkar saman, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Þá er veisludagur og heldur fjörið svo sannarlega áfram.

Kærleikskveðjur héðan úr Ölveri

Erla Björg Káradóttir forstöðukona