Þá er veisludagur runninn upp. Stelpurnar vöknuðu hressar í morgun en fengu að sofa örlítið lengur en vanalega. Morguninn var hefðbundinn en á morgunstundinni töluðum við saman um mikilvægi þess að elska sig og að sýna öllum öðrum sem og sjálfum sér kærleika og virðingu. Þá var haldið niður í sal þar sem stelpunar skrifuðu í dagbókina sína og unnu smá kærleiksverkefni. Þær fóru síðan með bænakonunni sinni inn á herbergi og þar skrifuðu þær falleg orð og setningar til hver annarrar sem þær fá að fara með sér heim.

Í hádegismatinn voru fiskibollur með hrísgrjónum og karrýsósu. Eftir matinn var stelpunum safnað inní sal og þeim tilkynnt að nú væru þær að halda inní ævintýraveröld. Eitt og eitt herbergi var svo leitt inní heim þar sem þær hittu m.a fyrir norn sem var búin að blanda ógeðisdrykk sem þær þurftu að smakka, trúð sem sýndi listir sínar, sjóræningja sem var heldur illa farinn og Gullbrá sem lét þær smakka mjög svo undarlega grauta.

Í kaffitímanum fengu þær gulrótarköku og Ölversbollur og eftir kaffi var potta og kósýstund þar sem þær undirbjuggu sig fyrir veislukvöldmáltíðina.

Þá hófst veislukvöldmatur sem var pizza og fengu þær ís í eftirrétt. Þá var blásið til kvöldvöku þar sem starfsfólkið sýndi hvert leikritið af öðru af sinni alkunnu snilld.

Bænakonurnar fóru svo inn herbergin sín og komu á ró eftir frábæran dag.

Á morgun er heimfarardagur, ótrúlegt en satt, vikan hefur liðið svo hratt!

Kær kveðja héðan úr Ölveri

Erla Björg Káradóttir forstöðukona