Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar kl. 09:00 í morgun og sváfu nokkuð vel þrátt fyrir mikla spennu, nýtt umhverfi og vera svona margar saman í herbergi.

Morguninn var með hefðbundnu sniði. Byrjuðum á að fá okkur smá næringu, fórum svo út í fánahyllingu, tókum vel til í herbergjunum okkar (hegðunarkeppnin formlega hafin) og fórum svo á morgunstund. Í lok morgunstundarinnar voru brennóliðin kynnt og brennókeppni flokksins formlega sett. Hópurinn fór þá rakleiðis út í íþróttahús með keppnisskapið og hvatningarópin að vopni.

Eftir hádegismatinn var haldin „nammi-spurningarkeppni“ þar sem stelpurnar unnu bæði í hóp og sem einstalingar. Liðin fengu eitt nammi fyrir hvert rétt svar, 1 stig = 1 nammi 🙂

Eftir kaffitímann var hópurinn kallaður inn í matsal og það leit út fyrir að það væru að byrja Ölversleikar en í miðri liðaskiptingu var hópurinn truflaður. Inn óð lafmóður starfsmaður í mjög áhugaverðum búning. Það var komið að ÆVINTÝRALEIK FLOKKSINS! Stelpurnar voru ótrúlega spenntar og fljótar að bregðast við. Þær fengu fyrsta verkefnið inni í sal en um leið og þær náðu að leysa það fengu þær næsta verkefni. Leikurinn reynir á samvinnu og útsjónasemi hópsins. Til að „vinna“ leikinn þurfa þær að hjálpast að og vinna saman. Það tók þær smá tíma að átta sig á því hve mikilvæg samvinna getur verið og hve mikilvægt það er að hlusta vel á fyrirmæli. Um leið og þær fóru að vinna saman voru þær enga stund að klára leikinn. Hópurinn sýndi frammúrskarandi samvinnu og fundu virkilega fallega lausn til að sigra leikinn og unnu saman sem ein heild.

Eftir kvöldmatinn var stutt kvöldvaka og svo var stelpunum boðið niður í kósýkvöld/kvöldpott. Þær sem vildu gátu farið í heita pottinn og/eða sturtu á meðan aðrar spiluðu, teiknuðu og dekruðu við hver aðra.

Stelpurnar komust fljótt í ró eftir kósýheitin og virtust alsælar með daginn.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Hádegismatur: BBQ kjúklingur og hrísgrjón
Kaffi: Hjónabandssæla og súkkulaðibitakökur
Kvöldmatur: Grænmetisbuff, cous cous, salat og heimatilbúin grænm.sósa
Kvöldkaffi: Appelsínur og banana