Stelpurnar voru vaktar með jólatónlist í morgun (kl. 09:30) og allir kallaðir beint inn í matsal. Matsalurinn tók á móti þeim í jólaskrúða, jólatré, jólaljós og jólastemning eins og hún gerist best. Morguninn var því með mjög óhefðbundnu sniði en við byrjuðum á því að halda létt JÓLABALL til að setja hátíðina Jól í júlí og dönsuðum í kringum jólatréð.

Eftir hádegismat var blásið til ÖLVERSLEIKA! Stelpunum var þá skipt upp eftir brennóliðum og hvert herbergi einkennt með lituðu Ölvers-vesti. Þær áttu svo að fara á milli stöðva og leysa hinar ýmsu þrautir ýmist sem einstaklingar eða sem hópur. Þrautirnar voru margar hverjar virkilega furðulegar og var meðal annars keppt í furðuveru, grettum, BROSI, könglulóáannarri-boðhlaupi, matarkexáti, dans á blaði og túttusparki, svo fátt eitt sé nefnt.

Eftir kaffitímann var komið að HÆFILEIKAKEPPNI. Stelpurnar fengu hálftíma til að æfa atriði og svo mættu dómararnir á svæðið. Hópurinn kom starfsfólkinu svo sannarlega á óvart… þvílík hæfileikabúnt! Þetta var klárlega ein flottasta hæfileikakeppni sem við höfum séð í sumar.

Eftir kvöldmatinn var hefðbundinn kvöldvaka þar sem eitt herbergi sá um skemmtiatriði. Það var mikið hlegið og stelpurnar virtust skemmta sér konunglega. Það var mikill galsi í hópnum eftir kvöldvökuna og starfsfólkið vissi að það yrði ekki auðvelt að koma stelpunum í rúmið…. það var því ákveðið að halda partýinu gangandi og henda í NÁTTFATAPARTÝ! .. Þvílíka stemningin! Það var mikið dansað og miki sungið og massa stuð á öllum hópnum.

Eftir viðburðaríkan dag fóru stelpurnar kátar og brosandi að sofa.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Morgunmatur: Jólagrautur og íspinni
Hádegismatur: Skyr og brauð
Kaffi: Skinkuhorn og rice krispies
Kvöldmatur: Pizza-hlaðborð
Kvöldkaffi: Appelsínur og bananar