Stelpurnar voru vaktar með tónlist í morgun (kl. 09:30) og við áttum frekar hefðbundinn og góðan morgun. Tókum til í herbergjunum okkar, áttum krúttlega morgunstund og spiluðum brennó.

Eftir hádegismat fóru stelpurnar allar upp í kvöldvökusal þegar þangað var komið birtust þrjár óþekkjanlegar konur sem dönsuðu og löbbuðu í takt við popp tónlist. Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar stelpurnar komust að því hvað þær væru að fara að gera, það var komið að Ölver‘s Top Model. Leik/keppni sem snýst um og reynir á samvinnu hópsins og sköpunargáfu, hver hópur fékk tvo ruslapoka, band, skæri og límband. Verkefni hópanna var að búa til klæðnað úr ruslapokunum og mega aðeins nota það sem þær fengu afhent og það sem hægt er að finna úti í náttúrunni. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og starf dómaranna því alls ekki auðvelt í þetta skiptið. Þegar tískusýningunni var lokið og búið var að taka myndir af öllum hópum og ganga frá tók hópurinn sig til, tók forstöðukonuna og hentu henni í pottinn. Hún tók þessu furðuvel og dró 3 aðra starfsmenn ofan í með sér.

Eftir kaffitímann tók við léttur leiklistartími þar sem öllum var úthlutað hlutverk. Hver og ein fékk nafn og starfsheiti til að vinna út frá. Verkefnið var svo að setja sig inn í hlutverkið og búa til stutta baksögu um sína persónu, farið var í ýmsa leiki og æfingar til að koma hópnum af stað með verkefnið.

Eftir kvöldmat var komið að kvöldvöku þar sem eitt herbergi sá um að vera með skemmtiatriði og líkt og fyrri kvöld uppskáru atriðin mikinn hlátur. Eftir kvöldvökuna fóru stelpurnar niður í matsal en búið var að breyta matsalnum stelpurnar voru fljótar að átta sig á því að nú ættu þær að nota og leika sér aðeins með persónurnar sem þær höfðu skapað fyrr um daginn. Hópurinn fór því næst í leik sem er kallaður „Varúlfur“ en leikurinn reynir mikið á sköpun, leiklist og útsjónasemi hópsins. Eftir leikinn var orðið frekar heitt og þungt loft inni í salnum og var því ákveðið að klára kvöldið með óhefðbundnu kvöldkaffi. Starfsfólkið kom stelpunum heldur betur á óvart þegar þær settu upp ÍS-BAR með öllu tilheyrandi í kvöldkaffinu. Ís-barinn vakti mjög mikla lukku.

Það var mikill galsi í hópnum eftir viðburðaríkan en þó huggulegan dag. Það tók smá tíma að fá ró í húsið en það gekk samt mjög vel.

Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona

Myndir frá vikunni má sjá hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157715094819583/

Morgunmatur: Morgunverðarhlaðborð
Hádegismatur: Skólastjórasúpa með öllu tilheyrandi
Kaffi: Brauðbollur og karmellulengjur
Kvöldmatur: Lasagne, hvítlauksbrauð og salat
Kvöldkaffi: ÍS-bar