Stelpurnar voru vaktar um kl. 09:30 og byrjuðu daginn á því að græja sig og fá sér næringu. Eftir að allir höfðu fengið næringu og vaknað almennilega tók við smá tiltekt inni á herbergjunum. Þegar öll herbergi voru orðin hrein og fín voru stelpurnar kallaðar inn í matsal þar sem það var leynigestur mættur í heimsókn. Í matsalnum tók Jón Viðar Arnþórsson frá ISR Matrix á móti hópnum. Margar könnuðust við hann úr Allir geta dansað en hann var mættur til að fara yfir grunnatriði í sjálf- og neyðarvörn og spjalla aðeins við stelpurnar um öryggi. Hann var með okkur í 2 klukkustundir og sló heldur betur i gegn.
Eftir hádegismat var komið að næstu umferð í brennókeppni flokksins. Keppnin er ansi hörð og liðin virkilega sterk og mikið keppnisskap í hópnum. Þær eru með hvatningarópin á kristaltæru og duglegar hvetja að vinkonur sínar áfram.
Eftir kaffitímann var ákveðið að hafa rólega stund. Starfsfólkið kallaði eitt herbergi í einu inn í matsal þar sem stelpurnar fengu að búa til sinn eigin brjóstsykur. Hvert herbergi valdi sinn lit og sitt bragð og svo gerði hver og ein sinn brjóstsykurspoka. Þetta vakti mikla lukku og gekk vonum framar.
Á kvöldvökunni sáu tvö herbergi um að skemmta hópnum og var hvort herbergi um sig með einn leik og eitt leikrit. Eftir kvöldvökuna þegar stelpurnar voru búnar að hátta sig og græja fyrir svefninn var þeim boðið upp í kvöldvökusal í bíókvöld þar sem þær horfðu á myndina The Parent Trap og fengu smá nammi og ávexti.
Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona
Morgunmatur: Morgunverðarhlaðborð
Hádegismatur: Kókos-karrý kjúklingar og hrísgrjón
Kaffi: Heimagert brauð, kókoskúlur og súkkulaðibitakökur
Kvöldmatur: Grjónagrautur og slátur
Kvöldkaffi: Bananar og epli